„Ég var lasin í höfðinu í mörg ár eftir“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég var lasin í höfðinu í mörg ár eftir“

15.03.2022 - 08:54

Höfundar

„Þar skeit ég á mig líka, ruglaði textum og svona. Geturðu ímyndað þér að vera í áttunda bekk og syngja fyrir framan framhaldsskólanema?“ segir tónlistarkonan Margrét Rán Magnúsdóttir um fyrstu reynslu sína af því að standa á sviði. Árið 2013 stofnaði hún hljómsveitina Vök, vann Músíktilraunir og hefur boltinn verið rúllandi alla tíð síðan. Hún hefur sigrast á sviðsskrekknum að mestu.

Tónlistarkonan Margrét Rán er betur þekkt sem Margrét í Vök, enda hefur hún verið í þeirri hljómsveit frá árinu 2013 og lítur hún á bandið sem barnið sitt. Í dag syngur hún líka með Gus Gus og semur einnig tónlist fyrir kvikmyndir og auglýsingar. Það má því með sanni segja að tónlistin eigi hug hennar allan.

Vissi ekki hvað hún væri mikil félagsvera 

Margrét Rán segist alltaf hafa verið kvíðin á uppvaxtarárunum og telur það haldast í hendur við að vera skilnaðarbarn. „Ég verð drepin fyrir að segja þetta, en ég var slysabarn,“ segir Margrét Rán í samtali við Andra Frey Viðarsson í Sunnudagssögum á Rás 2. Hún flakkaði því jafnt á milli Akraness og Hafnarfjarðar í kjölfar skilnaðar foreldra sinna. „Þau voru eiginlega ekki saman þegar ég fæðist. En svo byrja þau saman og hætta saman, þessi saga.“ Hún hafi í raun og sannleika verið fegin þegar foreldrar hennar hafi hætt endanlega saman.  

Þrátt fyrir að hafa verið kvíðin þá var Margrét glöð sem barn og þótti gaman að vera krakki. Hún byrjaði snemma að plokka á gítarinn, einungis tíu ára gömul. „En ég komst ekki í gegnum blokkflautuna því mér fannst hún svo ógeðslega leiðinleg,“ segir Margrét og náði hún því ekki að komast inn í tónlistarskólann. Hún sat þó alls kyns gítarnámskeið og skellti sér svo í raftónlistarnám þegar hún varð eldri.  

Ef hlustað er á lagatexta Margrétar mætti ætla að hún hafi verið einmana í æsku en Margrét segist alltaf hafa verið sjálfri sér næg. „En ég átti aldrei erfitt með vini, ég glímdi ekki við að vera einmana upp á það að gera,“ segir hún. Í kjölfar heimsfaraldurs hefur hún þó áttað sig á því hvað hún er í raun mikil félagsvera. „Ég vissi ekki hvað mér finnst gaman að vera innan um fólk og nærist á því.“  

Dreymdi snemma um frægð og frama  

Æfingahúsnæðið á Akranesi, sem var í senn stúdíó, varð Margréti eins og annað heimili á hennar yngri árum og kom jafnvel fyrir að hún eyddi þar heilu og hálfu nóttunum. Eitthvað sem Margrét segist gera enn þann dag í dag.  

„Ég gleymi því aldrei þegar ég er lítil og byrjuð að dittla á gítarinn, þá er ég alltaf með Hollywood á heilanum og hugsaði að ég ætlaði að meika það í Bandaríkjunum,“ segir Margrét. „Þessi draumur kom mjög snemma hjá mér. Ég hef alltaf vitað að þetta væri leiðin sem ég vildi fara.“  

Var mörg ár að jafna sig  

Í áttunda bekk steig Margrét fyrst upp á svið og segist hún hafa verið „alveg skítdauðhrædd“.

Hún hafi tekið þátt í söngvakeppni á Akranesi og unnið, þrátt fyrir skelfilegan óttann. Hún tók lagið Don’t Speak með No Doubt og fór þaðan í Söngvakeppni Vesturlands sem hún vann og loks á Samfés. „Þar brotnaði sjálfstraustið vel niður,“ segir hún. „Þegar maður er að koma fram í fyrsta skipti, þá má ekki koma brestur í röddinni. En það gerðist mörgum sinnum hjá mér.“

Einnig hafi hún sungið í framhaldsskólanum á Akranesi sem hún segir ekki hafa hjálpað sér. „Þar skeit ég á mig líka, ruglaði textum og svona. Geturðu ímyndað þér að vera í áttunda bekk og syngja fyrir framan framhaldsskólanema?“ Eftir þetta hafi hún tekið sér frí frá tónlistinni. „Ég var lasin í höfðinu í mörg ár eftir þetta, að reyna að rífa mig upp úr þessu.“  

Blessunarlega hefur Margrét náð að jafna sig á sviðsskrekk sínum því árið 2013 stofnaði hún hljómsveitina Vök, keppti í Músíktilraunum og vann.  

Stofnaði bandið mánuði fyrir keppni 

„Það sem hjálpaði okkur var að ég var búin að gera dáldið góða grunnvinnu,“ segir Margrét en hljómsveitin var ekki stofnuð nema mánuði áður en keppnin var haldin. Hún hafi tekið ár í Tónlistarskóla Kópavogs þar sem hún gerði raftónlist og samdi meðal annars lagið Before, sem er enn mest spilaða lag Vakar. Mánuði fyrir keppnina hafi bandið síðan samið lögin Ég býð þín og Við vökum.  

Bandið stofnaði hún með Andra Má Enokssyni. Þau kynntust í Flensborg þegar Margrét var 15 ára en hann 18 ára og segir hún hann vera einn þeirra sem kynnti hana fyrir alls konar tónlist. Þegar hún var yngri tók hún mörg tímabil, þar á meðal rokktímabil. „En þegar ég byrja að fá svona góðan sting í magann þá kynnist ég tripp poppinu, eins og Zero 7 og Massive Attack. Þetta hafði rosaleg áhrif á mig,“ segir hún. „Þarna hugsaði ég að mig langaði að gera eitthvað spes og öðruvísi.“ 

„Hvaða fimm þúsund manns eru að hlusta á lagið mitt?“ 

„Við höfum alltaf verið að byggja okkur hægt og rólega upp,“ segir Margrét og byrjuðu þau á því að vinna Músíktilraunir. „Þetta er svo yndisleg keppni að þarna fær maður svolítið spark upp á við.“ Þau hafi fengið plötusamning og svo hafi náttúrulegur vöxtur hlustana fylgt.  

„Ég gleymi því ekki þegar ég kíki á SoundCloud og það eru fimm þúsund spilanir á Before á dag,“ segir Margrét og segist hafa spurt sig: „Hvaða fimm þúsund manns eru að hlusta á lagið mitt?“ Þau hafi svo byrjað að fara aðeins til Evrópu og bætt í hópinn. „Þetta gerðist allt á ótrúlega skemmtilegan hátt.“  

Rætt var við Margréti Rán Magnúsdóttur í Sunnudagssögum á Rás 2. Hlusta má á viðtalið í heild sinni hér. 

Tengdar fréttir

Gaman að sjá hvað Ísland tók vel í þessa plötu