Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Dolly Parton afþakkar inngöngu í frægðarhöllina

15.03.2022 - 15:16
epa04301421 US singer Dolly Parton performs on stage at the Lanxess Arena in Cologne, Germany, 05 July 2014, during her 'Blue Smoke World Tour'.  EPA/HENNING KAISER
 Mynd: EPA
Bandaríska tónlistarkonan Dolly Parton hefur afþakkað tilnefningu í frægðarhöll rokksins. Hún segist frekar vilja hleypa öðrum tilnefndum að sem rokkstimpillinn eigi betur við.

Ár hvert eru hljómsveitir og tónlistarfólk tekin inn í frægðarhöll rokksins. Það er dómnefnd á samnefndu safni í Ohio í Bandaríkjunum sem sér um að velja þau sem koma til álita ár hvert. Og þarna er ekki pláss fyrir nýgræðinga, tónlistarfólk kemur eingöngu til greina þegar 25 ár eru liðin frá því að fyrsta plata þeirra kom út.

Skilgreiningin er að þau sem tilnefnd eru hafi sett mark sitt á tónlistarsöguna. Það væri of langt mál að telja upp þau sem þegar hafa verið tekin inn í frægðarhöll rokksins en nægir kannski að nefna Elvis Presley, Arethu Franklin, Bítlana og Rolling Stones. 

Sautján hljómsveitir og tónlistarmenn eru tilnefnd að þessu sinni, eða þau voru sautján áður en eitt þeirra afþakkaði tilnefninguna. Bandaríska tónlistarkonan Dolly Parton sendi frá sér yfirlýsingu í gær og sagðist ekki eiga nafnbótina skilda. Hún hafi þegar verið tekin inn í frægðarhöll kátrísins en hafi aldrei gefið út rokkplötu. Henni þyki því aðrir tilnefndir verðskulda frekar inngöngu í frægðarhöll rokksins. 

Í yfirlýsingunni segir Parton sömuleiðis að tilnefningin ætti kannski að hvetja hana til að gefa út sína eigin rokkplötu. Eiginmaður hennar sé mikill rokkhundur og hafi hvatt hana óspart til að gera það einn daginn. Hún sagðist vonast til að koma mögulega aftur til greina í frægðarhöll rokksins einn daginn, þegar hún hefur unnið sér það inn. 

Meðal þeirra sextán sem tilnefnd eru í ár eru hljómsveitirnar Duran Duran, Rage Against the Machine, Eurytmics og A Tribe Called Quest. Það tónlistarfólk sem sömuleiðis kemur til greina eru Eminem, Dionne Warwick, Lionel Richie og Kate Bush. 

Tilkynnt verður um nýja liðsmenn í frægðarhöll rokksins í maí.