Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Biður um aðstoð vegna nauðgunardóms á Íslandi

15.03.2022 - 11:06
Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú
Andrés Manga Escobar, kólumbískur knattspyrnumaður sem nýverið var dæmdur fyrir nauðgun hér á landi, veitti í gær sjónvarpsstöð í heimalandi sínu viðtal þar sem hann sagðist hafa verið beittur órétti á Íslandi. Það væri erfitt fyrir hann að vita að hann væri fordæmdur í heimalandinu þegar landar hans vissu ekki hvað hefði gerst.

Héraðsdómur Reykjavíkur sakfelldi Escobar fyrir nauðgun og dæmdi hann í tveggja og hálfs árs fangelsi. 

Dómurinn taldi Escobar hafa notfært sér að konan hefði verið illa áttuð og ekki getað spornað við verknaðinum sökum ölvunar.  Honum hefði mátt vera ljóst ástand hennar en látið sér það í léttu rúmi liggja. Brot hans hefði verið gróft, haft alvarlegar afleiðingar fyrir hana og með því hefði hann brotið gróflega gegn kynfrelsi hennar.

Escobar lék með Leikni í úrvalsdeild karla á síðasta tímabili.  Hann hefur áfrýjað dómnum til Landsréttar og verður í farbanni þar til endanlegur dómur liggur fyrir.

Í viðtali við kólumbískan íþróttaþátt, segist hann hafa verið með sönnunargögn sem sanni sakleysi hans en að héraðsdómur hafi kosið að líta fram hjá þeim.  „Ég hef verið beittur órétti. Ég er saklaus af ákærunni og vil biðja um hjálp, hvort sem það er frá stjórnvöldum eða einhverjum sérfræðingum.“

Mál Escobar hefur vakið nokkra athygli í Kólumbíu þar sem vefmiðlar hafa rifjað upp feril hans sem virðist hafa verið býsna skrautlegur. Hann var um tíma meðal efnilegustu leikmanna Kólumbíu og lék meðal annars með stórstjörnunni James Rodriguez í yngri landsliðum landsins.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV