Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Andleg eftirköst faraldursins

15.03.2022 - 15:56
Mynd með færslu
 Mynd: Andrew Neel - Pexels
Niðurstöður umfangsmikillar rannsóknar benda til þess að þeir sem sýktust alvarlega af covid eigi frekar á hættu að glíma við langvarandi sálræn einkenni. Þeir sem höfðu sýkst af covid fundu fyrir minni þunglyndis- og kvíðaeinkennum heldur en þeir sem aldrei höfðu greinst.

Þarf að hlúa að þeim sem veiktust illa

Þetta kemur fram í rannsókn sem nær til tvö hundruð og fimmtíu þúsund manns í sex löndum, þar á meðal Íslands. Vísindamenn við Háskóla Íslands gerðu rannsóknina í samvinnu við erlent samstarfsfólk.

Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði, er einn þeirra sem kom að rannsókninni. Hann segir hana gefa vísbendingar um hvernig líkamlegir sjúkdómar og andleg heilsa spili saman. <

Hin andlegu eftirköst eru mest hjá þeim sem veiktust alvarlega og lögðust inn eða voru rúmliggjandi í vikutíma eða lengur. Þór segir nú staðfest að það þurfi að huga að því fólki sem veikist illa. Hin andlegu eftirköst geti varað í allt að eitt og hálft ár.

„Ég held að þau kalli á þau viðbrögð að eftirfylgni með sjúklingum sé góð, að hlúa að fólki, ekki bara þessum líkamlegu kvillum heldur líka þessum andlegu, veita stuðning. Huga verður að því í framtíðinni,“ segir Thor.

Kvíðaeinkenni hjá þeim sem ekki sýktust

Rannsóknin sýndi að þeir sem höfðu ekki sýkst fundu fyrir meiri kvíðaeinkennum en þeir sem smituðust og voru með væg einkenni.

„Þá getur maður hugsað sér ef einstaklingur gengur í gegnum að fá þennan sjúkdóm og birtingarmyndin er mjög væg. Þessi einstaklingur er þá einhvern veginn sloppinn í gegn. Þeim er kannski bara létt, áhyggjurnar að einhverju leyti að baki, og þessi kvíði fyrir því að veikjast,“ segir Thor.