Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

„Þurfum að læra að lifa með kanínunum“

14.03.2022 - 08:10
Mynd: Sölvi Andrason / RÚV
Kanínur hafa ekki verið lengi í íslenskri náttúru en nú virðist stofninn hafa fest sig í sessi. Skógfræðingur segir að eini möguleikinn sé að læra að lifa með dýrunum.

Vill ekki kalla kanínurnar plágu

Kanínurnar láta ekki mikið sjá sig þessar vikurnar en ummerki um þær má sjá um allan skóg. Talið er að hundruðir dýra lifi í Kjarnaskógi á Akureyri.

Í Kjarnaskógi var byrjað að farga kanínum, með það fyrir augum að útrýma stofninum, árið 2014. Það er ekki lengur markmiðið heldur að halda stofninum í skefjum. 

Ingólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga, segist ekki vilja kalla kanínurnar plágu. „Það eiginlega þýðir ekkert. Þessar kanínur eru komnar til að vera og við losnum ekkert við þær. Við þurfum bara að læra að lifa með þeim.“

Eru sólgnar í græðlinga af fínni sortinni

Kanínur leggjast helst á græðlinga þannig að girða þarf utan um þá með hænsnaneti.

Ingólfur hefur sett varnargirðingu í kringum kirsuberjatré sem verið er að rækta í Kjarnaskógi. „Það er þetta fínerí sem maður er að setja, svona blómstrandi tré og runnar það er oft af rósaætt og þeim finnst það langbest.“

Mikið fjárhagslegt tjón 

Ásgeir Þór Ásgeirsson, starfsmaður gróðrarstöðvarinnar Sólskóga segir ýmsum ráðum er beitt til að koma í veg fyrir skemmdarverkin. „Við notum þessa fælu, hún sendir frá sér hátíðnihljóð til að koma í veg fyrir að þær komi inn á svæðið og einnig erum við með kanínugirðingar allt í kring. Kanína getur, ef hún kemst yfir girðinguna, þá getur hún borðað nokkur hundruð plöntur á klukkutíma. Þannig að það er mikið fjárhagslegt tjón ef hún kemst inn fyrir.“

3000 kanínur hafa verið skotnar

Bæjaryfirvöld sjá til þess að halda kanínustofninum í skefjum og segir Jón Birgir Gunnlaugsson, verkefnastjóri umhverfismála hjá Akureyrarbæ að ef ekkert væri að gert myndi stærð stofnsins fara úr böndunum. Hann segir meindýraeyði á vegum bæjarins sjá um að skjóta kanínurnar. 

„Það er ofsalega misjafnt hvað margar eru skotnar á ári, við getum sagt nokkur hundruð en frá upphafi er þetta farið að nálgast 3000 dýr,“ segir Jón Birgir.

Flestir hrifnir af dýrunum

Það séu helst skógræktarsjónarmið sem ráði því að dýrunum er fargað. Almenningur virðist hafa gaman af villtum kanínum.

Kristín Heiða Magnúsdóttir sem var á gangi í Kjarnaskógi segist hafa gaman af að sýna syni sínum Nóel Þór kanínurnar. „Mér finnst bara frábært að leyfa þeim að lifa hér, villtum kanínum, yndislegt að skoða þær.“

Þórey Magnúsdóttir tók undir þetta. „Svo var mér sagt að þær væru teknar og drepnar. Mér finnst það bara alveg skelfilegt.“

Ingólfur Jóhannsson segir það fari eftir því hvort þú spyrjir skógfræðinginn eða manninn Ingólf hvað honum finnist um kanínurnar. Vissulega séu þær skaðvaldar við trjárækt en veiti þó gleði sem falleg dýr. „Þetta er svona ást og hatur, ég held þessu sé best lýst þannig.“