Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Geðhjálp gagnrýnir Willum fyrir skort á samráði

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Formaður Geðhjálpar furðar sig á því að ekki hafi verið haft samráð við notendur heilbrigðisþjónustu við breytingar á lögum um sjúklinga. Aðeins hafi verið haft samráð við Landspítalann. „Við áttum samtal við heilbrigðisráðherra 22. desember þar sem hann fullvissaði okkur um að það yrði samtal en svo kemur hann fram með það 2. mars og aftur í dag. Þannig að við erum svolítið undrandi yfir því hvað liggi svona á að keyra þetta í gegn, án alls samráðs við notendur þjónustunnar.“

Heilbrigðisráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingu á lögum um sjúklinga. Formaður Geðhjálpar furðar sig á því hvernig frumvarpið var unnið, að samráð hafi aðeins verið haft við Landspítalann.

„Við erum bara mjög undrandi á þessu af því að 22. desember tjáði hann okkur það, að við höfðum bent á að það skorti allt samráð um þetta frumvarp. Jú, það fór í samráðsgáttina og við gátum gefið komment. En það gengur ekki í nútímalýðræðisríki að eiga bara samráð við þjónustuveitendur þegar kemur að þjónustunni. Það verður að tala við þjónustunotendur líka. Það var ekkert talað við þjónustunotendur þegar kom að samningu þessa frumvarps,“ segir Héðinn Unnsteinsson, formaður Geðhjálpar. 

Í athugasemdum með frumvarpinu segir að markmiðið sé að skapa lagaramma um það verklag sem viðhaft er á lokuðum deildum heilbrigðisstofnana hér á landi og felur í sér þvinganir, valdbeitingu eða annars konar inngrip í sjálfsákvörðunarrétt, frelsi og friðhelgi einkalífs sjúklinga. Í umsögn Geðhjálpar er vonbrigðum lýst, með að ekki sé ráðist í endurskoðun á hugmyndafræði og meðferð og byggður nýr meðferðarkjarni geðsviðs. Lögin séu lagfærð svo það verði ekki lengur lögbrot að brjóta á réttindum notenda þjónustunnar.

Héðinn segir að Geðhjálp vilji fá samtal við ráðuneytið um þessi mál.
„Og setjast niður og ræða þessi mál áður en farið er að þeysa inn á þing með löggjöf. Þetta frumvarp var stoppað í fyrrasumar af þáverandi heilbrigðisráðherra. Við áttum samtal við heilbrigðisráðherra 22. desember þar sem hann fullvissaði okkur um að það yrði samtal en svo kemur hann fram með það 2. mars og aftur í dag. Þannig að við erum svolítið undrandi yfir því hvað liggi svona á að keyra þetta í gegn, án alls samráðs við notendur þjónustunnar. Þetta er einu sinni frumvarp að lögum um réttindi sjúklinga. Þetta eru ekki lög um réttindi heilbrigðisstarfsmanna. Þetta er bara í engum takti við samtímann, svona vinnulag,“ segir Héðinn.