Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Hugmyndasöfnun nafna á nýtt sveitarfélag

Mynd með færslu
 Mynd: Geir Ólafsson - RÚV
Þann 19. febrúar síðastliðinn samþykktu íbúar Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps sameiningu sveitarfélaganna. Nafn sameinaðs sveitarfélags hefur ekki verið ákveðið en byrjað er að safna hugmyndum.

Allir geta skilað inn hugmynd

Opnað hefur verið fyrir hugmyndir á vefnum betraisland.is, sem er sérhæfður vefur í rafrænum samráðskerfum. Allir geta skilað hugmynd þangað inn fyrir 31. mars næstkomandi. Óskað er eftir því að stutt skýring fylgi hugmynd að nafni en þátttakendur geta síðan lýst skoðunum sínum á tillögum annarra. 

Heiti sveitarfélaga skulu samrýmast íslenskri málfræði og málvenju samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Nöfnin þurfa sömuleiðis að falla að lögum um örnefni.

Hugmyndasöfnunin mun einnig fara fram í skólum beggja sveitarfélaga. Farið verður yfir allar tillögur og undirbúningsstjórn velur fimm til tíu hugmyndir sem sendar verða Örnefnanefnd til umsagnar.

Ný sveitarstjórn ákveður nafnið

Gert er ráð fyrir að samhliða sveitarstjórnarkosningum í maí fari fram skoðanakönnun um nafnið meðal íbúa. Niðurstöður hennar verða leiðbeinandi fyrir nýja sveitarstjórn sem tekur endanlega ákvörðun um nafn sveitarfélagsins samkvæmt lögum.