Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Eldflaugum skotið að Arbil í Kúrdistan

13.03.2022 - 03:05
epa04357184 An Italian transport plane loaded with humanitarian relief goods for Iraqi Christians and Yazidi refugees in northern Iraq, lands at Erbil airport, Iraq 16 August 2014. Kurdish forces backed by US airstrikes on 16 August were attempting to
Flutningaflugvél á Arbil-flugvelli. Mynd: EPA
Nokkrum eldflaugum var skotið í dögun að Arbil, höfuðstað sjálfstjórnarhéraðs Kúrda í norðurhluta Íraks. Enginn virðist hafa særst í árásinni. Flaugunum var skotið úr austri utan landamæra Íraks og Kúrdistan.

Í tilkynningu frá hryðjuverkadeild Kúrdistan segir að tólf skotflaugum hafi verið beint að borginni og bandarísku ræðismannsskrifstofunni. Bandarísk yfirvöld segja að hvorki hafi orðið mannfall né skemmdir á húsnæði.

Omid Khoshnaw landstjóri á svæðinu segir enn ekki liggja fyrir hvort skotmarkið hafi verið skrifstofan eða flugvöllur sem er bækistöð fjölþjóðahers sem barist hefur gegn hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki.

Iðulega eru gerðar dróna- eða eldflaugaárásir á hersveitirnar og mannvirki Bandaríkjamanna á svæðinu. Vestrænir embættismenn kenna róttækum samtökum hliðhollum Írönum yfirleitt um árásirnar en þau hafa aldrei lýst yfir ábyrgð.

Flugvöllurinn skemmdist ekki og engar tafir urðu á flugumferð en Masrour Barzani forsætisráðherra fordæmir árásina. Hann hvetur íbúa til að halda ró sinni.