Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Brjáluð læti þegar risa höglum rigndi á Vestmannaeyjar

13.03.2022 - 19:30
Risa haglél í Vestmannaeyjum
 Mynd: María Erna Jóhannedóttir - Rúv
Risastórum höglum rigndi yfir Vestmannaeyjabæ um klukkan fimm í dag. Íbúi í bænum segist aldrei hafa upplifað annað eins haglél, rignt hafi snjóboltum sem skoppuðu til baka eins og poppkorn þegar þeir lentu á jörðinni. Veðurfræðingur segist aldrei hafa séð jafn stór högl áður hér á landi.

Skoppar eins og poppkorn

Margir Vestmannaeyingar deila myndum og myndböndum af ósköpunum á samfélagsmiðlum. María Erna Jóhannesdóttir er ein þeirra.  „Þetta var ekkert smáræði. Ég hef aldrei séð annað eins.“ 

María segir að éljagangurinn hafi staðið yfir í um það bil fimm mínútur. „Þetta byrjað bara með venjulegu hagléli og allt í einu komu eins og litlir snjóboltar, eða kringlóttir litlir klakar, og þessu fylgdu gríðarleg læti. Þetta er stærri en þumalputta nöglin mín, alveg rosalega stórt.  Þetta skoppar á jörðina og fer aftur upp því það eru svo mikil þyngsli og kraftur í þessu. Þetta er bara eins og sonur minn sagði, eins og það snjói klaka, og ég frysti nú bara svolítið af þessu.“

„Það var ógeðslegt að fá þetta í sig“

María Erna var inni í bíl þegar haglélið dundi fyrst yfir og þurfti að hlaupa inn í hús. „Það var ógeðslegt að fá þetta í sig. Mjög vont.“

Heldurðu að þetta hafi valdið einhverju tjóni?

„Ég hefði nú ekki viljað vera í gróðurhúsi eða einhhverju slíku. Ég hef ekkert heyrt af tjóni en ég veit ekki hvort einhverjar rúður hafi brotnað eða eitthvað.“

Veðufræðingur hefur aldrei séð annað eins

Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segist aldrei hafa séð annað eins hér á landi. 

„Þetta er það stærsta sem ég hef séð. Ég hef aldrei séð annað eins. Ég fékk senda mynd sem var með mælistiku og þá var þetta að minnsta kosti einn og hálfur sentimetri.“

Hún segir að mikill óstöðugleiki hafi verið í veðri við suðvesturströndina í dag. 

„Mikið um eldingar og svo kom þessi öflugi éljaklakki á Vestmannaeyjar. Á radarmynd er hann mjög vígalegur. Þetta hafa verið einhverjar miklar kjöraðstæður og óheppilegt að þetta hafi hitt þarna akkúrat á Vestmannaeyjar.“

Hún segir að högl á stærð við þetta séu mjög óalgeng á Íslandi. En hvað orsakar þetta? 

„Það er í rauninni bara þetta mikla uppstreymi í skýinu, það heldur því á lofti og það fellur ekki niður fyrr en það er orðið of þungt fyrir uppstreymið. Þannig að það hefur alltaf verð að hlaða meira og meira snjó utan á sig og fellur svo niður að lokum þegar það er orðið of þungt,“ segir Birta Líf. 

Risa haglél í vestmannaeyjum
solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV