Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Smástirni á stærð við bíl sprakk norður af Íslandi

12.03.2022 - 13:02
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - RÚV
Smástirni sprakk norður af Íslandi í gærkvöldi og birtist sjónvarvottum sem stórglæsilegur og ægibjartur vígahnöttur. Þetta er einungis fimmta smástirnið sem uppgötvast áður en það rekst á jörðina.

Steinninn stefndi nokkurn veginn á Ísland

Smástirnið sprakk norður af Íslandi og sunnan Jan Mayen um klukkan hálf tíu í gærkvöldi. Slíkir steinar falla í gegnum andrúmsloftið reglulega en uppgötvast sjaldan áður en þeir springa. Sævar Helgi Bragason, betur þekktur sem Stjörnu-Sævar, segir að þetta smástirni hafi fundist fyrir tilviljun.

„Það var bara verið að skanna himininn og þarna kemur í ljós lítill steinn, kannski í stærð við bíl, og þegar reiknuð er út stefna hans kemur í ljós að hann er á árekstarbraut við jörðina. Þá fyrst uppgötvuðum við að þessi steinn stefndi nokkurn veginn á Ísland eða rétt norðan við Ísland og það kemur í ljós einungis örfáum klukkustundum áður en þetta gerist,“ segir Sævar. 

Stjörnu-Sævar
 Mynd: RÚV
Sævar Helgi Bragason

Of lítið til að valda usla

Smástirnið vóg um sextíu til áttatíu tonn og ferðaðist á um fimmtán kílómetra hraða á sekúndu. Það sprakk í sennilega um 30 kílometra hæð yfir hafinu norðan Íslands. Smástirnið var það lítið að aldrei var talin hætta á að það gæti ollið skaða á jörðu niðri.  

„Það kemur í ljós strax, um leið og menn sjá hversu stór hann er, að engin hætta er á ferðum sem betur fer og að árekstrarstaðurinn er bara yfir hafi þannig að það er langt frá öllum mannabyggðum. Sömuleiðis var hann ekki nægilega stór til að komast alla leið í gegn þannig að fólk sem varð vitni að hrapinu sá aðallega bara ljósblossa, mjög skæran og fallegan ljósblossa,“ segir Sævar og bætir við að hann hafi fengið þó nokkur skilaboð frá fólki fyrir norðan, til dæmis úr sjóbörðunum við Húsavík, Blönduósi og víðar, sem lýsa skærum ljósblossa sem lýsti upp himininn í nokkrar sekúndur en hvarf svo jafnóðum. 

Steinninn hefði þurft að vera 15-20 metrar á stærð til að valda tjóni og þá mjög staðbundnu. „Bara svipað og gerðist í Rússlandi fyrir næstum tíu árum síðan. Þá var steinn sem sprakk yfir borg sem heitir Tsjeljabínsk og sá steinn var rétt rúmir 20 metrar í þvermál, hann var því mun stærri sá og olli nokkru tjóni en sem betur fer engu manntjóni.“

En hvað verður þá um brotin sem náðu í gegn?

„Öll brot hafa fallið ofan í hafið milli Íslands og Jan Mayen þannig að það verður því miður mjög erfitt, eða útilokað, að finna nokkur brot en stærðin bendir til þess að það hafa allavega einhver brot náð að komast alla leið í gegn og þau eru þá bara að bætast við grjótið sem er í hafinu þar undir.“