Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Jafnvel ekki neitt svigrúm til launahækkana segir SI

10.03.2022 - 22:22
Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Lítið ef nokkurt svigrúm er til launahækkana, segir formaður Samtaka iðnaðarins. Verðbólga og stríðið í Úkraínu valdi óstöðugleika í efnahagsmálum. 

Kjör launafólks gætu breyst í ár eða á því næsta. Fimmtíu kjarasamningar renna úr gildi seinni hluta ársins og sjötíu og fjórir á næsta ári. Samtök iðnaðarins efndu til iðnþings í dag og í ályktun þess er lýst áhyggjum af rekstrarumhverfi fyrirtækja.

„Hækkandi verðbólga, hækkandi vaxtastig, hækkandi hráefniskostnaður í kjölfar heimsfaraldursins og svo bætist við þetta hræðilega ástand sem kemur í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Þó við séum bjartsýnisfólk að upplagi þá er staðan erfið í augnablikinu. Og kjarasamningar losna í haust. Það sem við sjáum fyrir okkur út frá þessum efnahagsstærðum og efnahagsmálunum yfir höfuð að það verði erfitt um vik að eiga þetta samtal um hvað sé til skiptanna, heldur frekar: er eitthvað til skiptanna. Það væri hyggilegt að setjast niður fyrr en síðar og teikna upp þessa mynd í sameiningu. Því þetta er sameiginlegt verkefni okkar allra,“ segir Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka iðnaðarins.

En telurðu að svigrúmið til launahækkana sé mikið eða lítið?

„Ég myndi segja að það væri lítið ef eitthvað,“ segir Árni.

Já, jafnvel ekki neitt?

„Jafnvel ekki neitt. En það er auðvitað mismunandi eftir geirum,“ segir Árni.