Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Vilja afstýra ofskömmtun með fyrsta neyslurýminu

09.03.2022 - 21:50
Mynd: Guðmundur Bergkvist / Fréttir
Fyrsta neyslurýmið hér á landi er tilbúið til notkunar og verður opnað á morgun. Verkefnastýra Frú Ragnheiðar segir að mikil eftirspurn sé eftir þessu nýja úrræði.

Færanlegt, verður miðsvæðis og opið þegar önnur úrræði loka

Neyslurými er verndað umhverfi þar sem átján ára og eldri mega sprauta vímuefnum í æð undir eftirliti starfsfólks. Þar er gætt fyllsta hreinlætis, öryggis og sýkingavarna. Þetta er skaðaminnkandi úrræði sem er rekið um allan heim og á að geta komið í veg fyrir dauðsföll og ofskömmtun.

Ylja, fyrsta neyslurýmið hér á landi, opnar á morgun og verður starfrækt í þessum bíl. Reykjavíkurborg sótti um rekstur þjónustunnar hjá Landlæknisembættinu og Rauði krossinn heldur utan um reksturinn.

Það verður miðsvæðis og opið á milli klukkan tíu og fjögur, þegar gistiskýlin eru lokuð. Tveir starfsmenn verða alltaf á vakt og grípa inn í ef eitthvað fer úrskeiðis. Hafrún Elísa Sigurðardóttir er verkefnastýra Frú Ragnheiðar.
 
„Við reynum eftir bestu getu að taka skaðaminnkandi samtal við fólk aður en það notar hérna inni hjá okkur og við erum með vigt þar sem það getur vigtað efnin sín með vigt. Svo reynum við að fara í gegnum það með fólki hver sé þeirra venjulega skammtastærð til að reyna að koma í veg fyrir að fólk taki of stóran skammt.“

Fyrsta neyslurýmið.
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - Fréttir
Hafrún Elísa Sigurðardóttir, verkefnastýra Frú Ragnheiðar.

Vel tekið á móti fólki í hlýju og öruggu umhverfi

Í Ylju er allt til alls. Þar má finna ónotaðan sprautubúnað til að koma í veg fyrir að fólk fái sýkingar og smitsjúkdóma, ýmsar stærðir af sprautum og nálum og nálabox sem fólk getur tekið með sér til að farga notuðum sprautum á öruggan hátt. Þau sem eru illa búnin geta jafnvel fengið  ullarsokka, hlýja húfu og vettlinga. Í miðjum bílnum eru borð og stólar og gluggatjöld sem draga má fyrir, vilji fólk fá næði.

„Ef fólk vill fá smá næði getur það komið hérna, farið á bak við tjaldið og þá er samt alltaf starfsmaður hérna á vaktinni, hjúkrunarfræðingur og starfsmaður sem getur girpið inn í ef þess þarf,“ segir Hafrún.

Um 700 nota vímuefni í æð á Íslandi og þeim fer fjölgandi. Á fyrri helmingi ársins 2021 voru skráð 24 lyfjatengd andlát.

Hafrún segir að þetta sé tímabært skref og mikil eftirspurn sé eftir svona þjónustu. Það geti þó reynst fólki erfitt að taka fyrsta skrefið og að nota fyrir framan aðra. „En við höfum byggt upp mikið traust innan hópsins með Frú Ragnheiði og við vonumst eftir og reynum að nýta Frú Ragnheiði til að auglýsa starfsemina og fá þannig fólk til okkar.“

Aðspurð segir hún að mikil eftirspurn sé eftir þjónustu eins og þessari og að spenningur sé á meðal þeirra sem hafa verið gestir Frú Ragnheiðar.

„Það er mikið haft samband við okkur til að spyrja hvenær við förum af stað. Þannig að já klárlega, við finnum fyrir því.“

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV