Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Suður-Kóreumenn kjósa forseta í skugga omíkron-bylgju

09.03.2022 - 01:14
epa09811423 People vote at polling stations during the South Korean presidential election to choose a successor to outgoing President Moon Jae-in at a polling station in Seoul, South Korea, 09 March 2022. Voting started at 6:00 a.m. at 14,464 polling stations nationwide, with Covid-19 patients and those in quarantine allowed to vote from 6:00 p.m. to 7:30 p.m. after regular voting closes.  EPA-EFE/YONHAP SOUTH KOREA OUT
 Mynd: EPA-EFE - YNA
Forsetakosningar standa nú yfir í Suður-Kóreu og búist er við að valið standi á milli hins frjálslynda Lee Jae-myung og Yoon Suk-yeol, sem álitinn er íhaldssamari. Kórónuveirufaraldurinn fer mikinn í landinu, drifinn áfram af omíkron-afbrigði veirunnar.

Kjörstaðir voru opnaðir klukkan níu í kvöld að íslenskum tíma og kjörfundur varir í tólf klukkustundir. Að þessu sinni verður opið níutíu mínútum lengur en vant er, fyrir alla þá landsmenn sem eru covid-smitaðir. Kosningalögum var breytt í síðasta mánuði til þess að svo mætti verða en yfir 200 þúsund kórónuveirutilfelli hafa greinst daglega frá því um mánaðamót. Yfir milljón manns eru í einangrun. 

Búist er við að kjörsókn verði góð en kosningabaráttan hefur verið nokkuð óvægin. Um 44 milljónir Suður-Kóreubúa hafa kosningarétt en raðir grímuklæddra kjósenda tóku að myndast við kjörstaði fyrir dögun.

Helstu áhyggjuefni suðurkóreskra kjósenda, ef marka má kannanir, eru gríðarhátt húsnæðisverð, vaxandi samfélagslegur ójöfnuður og viðvarandi atvinnuleysi meðal ungs fólks.