Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Heilsugæsla undirbýr læknisskoðun úkraínsks flóttafólks

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins undirbýr nú læknisskoðun á flóttafólki frá Úkraínu. Fólkið verður skimað fyrir berklum, sárasótt, lifrarbólgu, HIV og líklega einnig fyrir covid. Gert er ráð fyrir að fjöldi fólks frá Úkraínu sæki um dvalarleyfi á Íslands. Talið er að fjöldinn gæti hlaupið á þúsundum. 

Í stöðuskýrslu landamærasviðs Ríkislögreglustjóra kemur fram að Wizz Air hefur gefið hundrað þúsund flugmiða sem ætlaðir eru flóttafólki og því kosti það Úkraínumenn ekki nema um sjötíu evrur eða tíu þúsund krónur að koma til Íslands. Flogið er þrjátíu og átta sinnum í viku frá Póllandi og átta sinnum í viku frá Ungverjalandi. 

Samkvæmt verklagsreglum Landlæknis eiga allir sem koma hingað frá löndum utan evrópska efnahagssvæðisins og óska eftir dvalarleyfi, að gangast undir læknisskoðun. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins leitar nú að húsnæði undir þetta. 

„Það er verið að leita að ákveðnum smitsjúkdómum og líka að skima fyrir andlegri vanlíðan. Þetta hefur svo sem verið í ákveðnu ferli hjá okkur á göngudeild sóttvarna en nú þurfum við aðeins að gefa í, breyta og aðlaga því það er von á miklu meiri fjölda en við höfum vanalega verið að sinna. Við erum búin að ráð inn fólk aukalega til að sinna þessum skoðunum,“ segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. 

Skimað verður fyrir berklum, sárasótt, lifrarbólgu og HIV. Er verið að taka próf fyrir covid-19?

„Það er eitt af því sem er skimað fyrir. Við vitum að það er ekki mikið um bólusetningar í þessum hópi. Þannig að við munum bjóða þeim bólusetningar eins og öllum sem koma. Þannig að við leggjum áherslu á að þau fái bólusetningar. Við vitum að þetta er fólk sem verður á ferðalagi oft við erfiðar aðstæður í miklum þrengslum og þá er alltaf hætta á smiti,“ segir Sigríður Dóra.