Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Hátt í 60 útvarpsstöðvar mótmæla stríði með Beethoven

Mynd með færslu
 Mynd: EBU Media

Hátt í 60 útvarpsstöðvar mótmæla stríði með Beethoven

09.03.2022 - 17:10

Höfundar

Samband evrópskra útvarpsstöðva, EBU, hefur ákveðið að mótmæla innrásinni í Úkraínu og votta fórnarlömbum stríðsins samúð með því að skora á útvarpsstöðvar í Evrópu að flytja Óðinn til gleðinnar úr 9. sinfóníu Beethovens fimmtudaginn 10. mars. Ástæðan fyrir því að Óðurinn til gleðinnar er valinn er sú að hann hefur lengi verið tákn fyrir frið, frelsi og mannréttindi.

Beethoven samdi sinfóníu sína nr.9 á árunum 1822-24 og hún var frumflutt í Vín 7. maí 1824. Það er í fjórða og síðasta þætti sem Óðurinn til gleðinnar fær að hljóma og hið fræga gleðistef er sungið af kór og einsöngvurum. Í ljóðinu, sem er eftir Friedrich von Schiller, segir meðal annars: „Alle Menschen werden Brüder“ – „Allir bræður aftur verða“.

Oft notaður sem mótmælasöngur

Árið 1972 gerði Evrópuráðið lag Beethovens að Óði Evrópu og oft hefur söngurinn verið notaður sem baráttusöngur gegn harðstjórn, til dæmis í baráttu gegn stjórn Pinochets í Chile á 8. áratug 20. aldar og í mótmælum kínverskra stúdenta á Torgi hins himneska friðar í Peking árið 1989. Frægt er þegar 9. sinfónían var flutt eftir fall Berlínarmúrsins 1989, Leonard Bernstein stjórnaði flutningnum og þá var sungið „Freiheit!“ (frelsi) í staðinn fyrir „Freude“ (gleði). Schiller orti ljóðið árið 1785 og sumir telja að hann hafi notað orðið „Frelsi“ í upphaflegri gerð þess, en ekki eru þó neinar öruggar heimildir fyrir því. Þýðing  Matthíasar Jochumssonar á ljóði Schillers hefst þannig:

Fagra gleði, guða logi,

Gimlis dóttir, heill sé þér!

í þinn hásal hrifnir eldi,

heilög gyðja, komum vér.

Þínir blíðu töfrar tengja,

tískan meðan sundur slær;

allir bræður aftur verða

yndisvængjum þínum nær.

Hljóðritun frá opnunartónleikum Hörpu 2011

Þegar Samband evrópskra útvarpsstöðva skoraði á útvarpsstöðvar að útvarpa Óðinum til gleðinnar í samhug með fórnarlömbum stríðsins í Úkraínu var þess einnig óskað að hver útvarpsstöð veldi hljóðritun sem skipti hana sérstöku máli. Hjá Ríkisútvarpinu var valin hljóðritun sem gerð var á Opnunarhátíð tónlistarhússins Hörpu 13. maí 2011. Það eru Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kór Íslensku óperunnar, Kór Áskirkju, sönghópurinn Hljómeyki og Óperukórinn í Reykjavík sem flytja 4. þátt sinfóníu nr.9 í d-moll eftir Ludwig van Beethoven. Einsöngvarar eru Þóra Einarsdóttir, sópran, Alina Dubik, mezzósópran, Sveinn Dúa Hjörleifsson tenór og Bjarni Thor Kristinsson, bassi. Stjórnandi er Petri Sakari.

Hljóðritunin verður flutt í þættinum “Á tónsviðinu”, fim. 10. mars, kl. 14.03.