Sá ýmislegt þegar hann ræsti fólk til vinnu

Mynd: Magnús Atli Magnússon / RÚV/Landinn

Sá ýmislegt þegar hann ræsti fólk til vinnu

08.03.2022 - 08:05

Höfundar

Loðnuvertíðin í Vestmannaeyjum gengur vel. Það gefst ekki mikill tími fyrir fyllerí eins og áður var en vertíðin breytir andanum í bænum og rífur upp stemninguna að sögn Benonýs Þórissonar, framleiðslustjórna hjá Vinnslustöðinni.

Það er enn þannig að fólk komi til eyja sérstaklega til að vinna á vertíð en það er eitt af fáu sem samræmist enn þáttunum Verbúðinni sem sýndir voru nýlega á RÚV. Margir koma frá Portúgal og Póllandi en líka Íslandi. 

„Núna horfirðu hérna inn og það eru kannski 5-10 manns að vinna en áður fyrr vorum við kannski með 50 manns á vakt,“ segir Jakob Möller verkstjóri sem ætlar að hætta á árinu eftir 50 ára feril. „Auðvitað var skemmtilegra en þetta gengur miklu betur og þetta er manneskjulegri vinna núna heldur en var. Þetta er skemmtilegt en þetta er stressandi, ein bræla hún skemmir.“ 

Jakob segist kannast við margt úr Verbúðarþáttunum og þeir hafi verið lýsandi fyrir lífið eins og það var í gamla daga. Hann sakni þeirra daga þó ekki. „Heldurðu að það hafi verið gaman að ræsa fólk í vinnu? Það var ýmsilegt sem maður sá.“ 

Landinn kynntist fólkinu á vertíð í Vestmannaeyjum og kynnti sér vinnsluna.