Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Öll hækkun síðustu tólf mánaða hefur þurrkast út

08.03.2022 - 18:43
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Úrvalsvísitala Kauphallarinnar er komin á sama stað og hún var á fyrir ári síðan. Öll hækkun hennar frá 9. mars í fyrra hefur þurrkast út. Vísitalan hefur lækkað um tólf prósent á aðeins þrettán dögum frá upphafi innrásar Rússa í Úkraínu. Þar ber hæst að hlutabréf í Icelandair hafa lækkað um 32 prósent.

Úrvalsvísitalan náði botni eftir upphaf covid-faraldursins í mars 2020. Eftir það hækkaði hún ótt og títt og rúmlega tvöfaldaðist þar til hún náði hápunkti 7. september. Hlutabréfavísitalan er enn mun hærri en hún var fyrir tveimur árum en hækkun hennar frá því fyrir ári síðan er öll gengin til baka. Hlutabréfaverð hækkaði um 20 prósent frá 9. mars í fyrra til 7. september, á aðeins hálfu ári. Frá haustinu var vísitalan á bilinu 3.200 til 3.400 stig til 24. febrúar. Þann dag hófst innrás Rússa í Úkraínu og úrvalsvísitalan féll um sex prósent. 

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, sagði í hádegisfréttum útvarps í gær að þrennt hefði mest áhrif á hlutabréfalækkun hérlendis. Það fyrsta er sú mikla óvissa sem hefur skapast með innrás Rússa í Úkraínu, slík óvissa reki alltaf fjárfesta úr sveiflukenndum fjárfestingarkostum í aðra öruggari. Í öðru lagi hafi hækkanir á orku- og hrávöruverði slæm áhrif á rekstur þeirra fyrirtækja sem nota slíkt í starfsemi sinni. Í þriðja lagi geti svo óvissa um efnahagshorfur á heimsvísu haft áhrif á það hversu vel ferðaþjónustan tekur við sér og hversu margir fljúga hingað til lands. Þetta hittir fyrirtæki eins og Icelandair sérstaklega illa fyrir.

Hlutabréfaverð í Icelandair hefur fallið um þriðjung á tæpum tveimur vikum. Fram kom í frétt Túrista í gær að heimsmarkaðsverð á þotueldsneyti sé komið langt yfir þau mörk sem stjórnendur Icelandair hafi gert ráð fyrir í afkomuspá sinni. Miðillinn sagði að frá 1. júlí yrði Icelandair í svipaðri stöðu og Wow Air var á sínum tíma.