Eurovision-lag huggaði Kötlu þegar faðir hennar lést

Mynd: RÚV / Stúdíó 12

Eurovision-lag huggaði Kötlu þegar faðir hennar lést

08.03.2022 - 16:50

Höfundar

Í maí árið 2018 var faðir söngkonunnar Kötlu orðinn afar veikburða og hún vissi hvert stefndi. Þá fann hún huggun í Eurovision-framlagi Þýskalands sem síðan hefur skipað stóran sess í hjarta hennar. Lagið varð innblástur að texta lagsins Then again sem hún syngur í Söngvakeppninni í ár.

Söng- og leikkonan Katla kíkti í Stúdíó 12 ásamt Snorra Beck sem er einn af lagahöfundum lagsins Þaðan af, eða Then again eins og það heitir á ensku og er framlag þeirra í Söngvakeppninni 2022. Þau fluttu bæði órafmagnaða ábreiðu af laginu Then again og fjögurra ára gamalt Eurovision-lag sem er í miklu uppáhaldi hjá Kötlu. Þau flugu áfram í úrslit með glæsilegum flutningi á laginu í seinni undanúrslitunum á laugardag.

Katla og Snorri gerðu lifandi ábreiðu af laginu You let me walk með Michael Schulte sem var framlag Þýskalands í Eurovision árið 2018. Lagið hefur sérstaka þýðingu fyrir Kötlu sem missti föður sinn árið 2018 eftir veikindi.

Í maí þegar keppnin var haldin var hann orðinn afar veikburða og Katla vissi hvert stefndi. Í laginu er ljóðmælandi að syngja til föður síns, og það talaði sannarlega til Kötlu þetta ár og hefur gert síðan. „Ég var í Eurovision-partý þegar verið var að syngja þetta, og ég þurfti að fara úr herberginu því ég var bara: Nei, ekki núna,“ rifjar hún upp.

Mynd: RÚV / Stúdíó 12
You let me walk í búningi Kötlu og Snorra

Eftir þetta hefur hún hlustað mikið á lagið og finnur í því huggun og hlýju. „Mér finnst þetta virkilega fallegt. Þetta er auðveld ballaða en textinn er svo fallegur,“ segir Katla.

Hún var meðal annars innblásin af þessu lagi þegar hún ræddi við lagahöfundana um í hvaða átt hún vildi taka lagið Then again. „Það er ástæða þess að ég bað Kidda að gera melankólískt lag því ég var bara, ég vil að fólk upplifi við það tengingu,“ segir hún um framlag hópsins sem hún lýsir sem vonarlagi. Kiddi er rapparinn Króli, eða Kristinn Óli S. Haraldsson einn lagahöfunda sem semur texta lagsins.

Snorri tekur undir að það sé mikilvægt að hlustendur og áhorfendur tengi við lagið. Til að tryggja það bað Katla um að það yrði aðeins dramatískt og sendi langan póst á lagahöfundana því til rökstuðnings. Þá hafði lagið farið víða en þau tóku það í þessa átt. Loks var lagið tilbúið og þau fundu að það var komið á fullkomlega réttan stað. „Þegar þetta var loks komið fundum við mikla sátt.“

Mynd: RÚV / Stúdíó 12

Katla og Snorri fluttu í stúdíóinu órafmagnaða útgáfu af laginu sem þau eru afar stolt af. Snorri segir að um leið og þau hafi sent lagið frá sér finnist honum eins og fólkið eigi það.

Katla tekur undir og segir að margt hafi breyst í kjölfarið á því að þau gáfu lagið fyrst út og athyglin hafi komið sér á óvart sem gerði hana meyra. Henni hafi til dæmis þótt merkilegt að fylgjast með því að erlendis væru ókunnugir einstaklingar að setja saman viðbragðs-myndskeið við laginu og setja á netið. „Ég var bara bíddu, bíddu, nú eru útlendingarnir byrjaðir að fylgjast með mér í undankeppninni,“ segir hún því þetta var meira að segja áður en ljóst varð að hún væri komin í úrslit.

„Svo þegar við vorum að keppa var ég að sjá fólk sem ég þekki ekkert með mynd af mér á lofti og ég var bara: Hvað er að gerast? Litlir krakkar að biðja mig um mynd og þá fór ég næstum að grenja,“ segir Katla sem er snortin yfir viðtökunum.

Hún er spennt fyrir laugardeginum en finnur líka fyrir stressi yfir að syngja fyrir alþjóðlega dómara og að það muni fara fram einvígi, „en ég er samt ofboðslega spennt því við erum búin að æfa þetta í mánuð,“ segir hún. „Þetta er bara komið í vöðvaminnið.“

Því fylgdi samt mikil spenna að stíga á svið síðasta laugardag og hún á ekki von á neinum breytingum á því. „Ég hélt ég væri að fara að æla en þegar það kom þarna „Katla“ þá var ég bara: Ég er ekkert að fara að flýja frá þessu núna. Ég get ekki hlaupið í burtu núna, það er allt of seint. Ég þarf þá bara að sanna mig,“ segist hún hafa hugsað. „Þá kom bara einhver værð yfir mig og ég bara ókei, ég þarf að gera þetta.“

Katla tekur þátt í Söngvakeppninni næsta laugardag klukkan 19:45.

Tengdar fréttir

Tónlist

Ekki hægt að segja nei við hvolpaaugum Lay Low