Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Telja mengun á herstöð orsaka alvarleg veikindi

06.03.2022 - 10:29
Mynd: AP / AP
Fjöldi fyrrum hermanna fer nú fram á rannsókn á mengun í herstöð í Kaliforníu, sem þá grunar að eigi þátt í veikindum þeirra. Bandaríkjaher hefur ekki viðurkennt að aðstæðum í herstöðinni hafi verið ábótavant.

Herstöðin Ford Ord í Kaliforníu á vesturströnd Bandaríkjanna á sér ríflega áttatíu ára gamla sögu. Stífar heræfingar undanfarna áratugi hafa sett mark sitt á svæðið. 

„Jarðvegurinn er afar mengaður, þarna hafa farið fram heræfingar frá því fyrir seinni heimsstyrjöld svo að í áratugi hafa verið þarna eiturefni,“ segir Raul Garcia, umhverfisfræðingur.

„Komist þau í snertingu við jarðvegin rata þau í grunnvatnið og haldast þar í áratugi og það er afar snúið að hreinsa þau upp,“ segir læknrinn Thomas Burke. 

Mynd með færslu
 Mynd: AP
Julie Akey.

Julie Akey greindist með mergæxli fyrir nokkrum árum en hún er ein fjölmargra fyrrum hermanna sem bjuggu á herstöðinni sem greinst hafa með alvarlega sjúkdóma undanfarin ár. 

„Ég bjó þarna á árunum 1996 og 1997. Maður hefði viljað vita þetta. Og að drykkjarvatnið hefði verið síað eða vatn fengið af flöskum og ekki verið nýtt í að rækja matjurtir á staðnum, segir Akey. 

„Ég hafði upp á konu sem bjó hinum megin við götuna mína og hún greindist sömuleiðis með mergæxli,“ segir Akey. Hún er ein þeirra fjölmörgu fyrrverandi hermanna sem vilja rannsókn á málinu. 

Eldsneytinu hellt ofan í grassvörðinn

Aðrir fyrrum starfsmenn herstöðvarinnar hafa sömuleiðis stigið fram og segjast hafa varað við vinnubrögðunum. 

„Við tókum króntappann á þyrlunni og tæmdum af henni eldsneytið beint í grasið og holræsakerfið,“ segir Curt Gandy, fyrrum flugvirki á Fort Ord. 

„Ég vissi að við vorum að brjóta umhverfislöggjöf Kaliforníu. Þegar ég vakti athygli yfirmanna minna á þessu, og reyndi svo að fylgja því eftir upp virðingarstigann eins og mælt er fyrir um hjá hernum, vildu þeir ekkert af því vita.“

Mynd með færslu
 Mynd: AP

Þetta er ekki eina bandaríska herstöðin þar sem grunur leikur á að umhverfið hafi verið heilsuspillandi. Bandaríkjaher hefur þó ekki viðurkennt brotalöm í þessum efnum nema í einu tilviki í Norður Karólínu. 

„Það eru margir þættir í faraldursfræðunum þar sem er erfitt að sanna orsök og afleiðingu. Erfiða spurningin og siðferðislega mest knýjandi er: ef vitað er að komist er í snertingu við eitruð efni þarna og það eykur áhættuna á sjúkdómum, verður þá að sanna það?“ spyr læknirinn Burke. 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV