Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Mesti fólksflótti í Evrópu frá seinni heimsstyrjöld

Migrants gather in front of a barbed wire fence at the checkpoint "Kuznitsa" at the Belarus-Poland border near Grodno, Belarus, on Monday, Nov. 15, 2021. European Union foreign ministers are expected Monday to decide to expand sanctions against Belarus to include airlines, travel agents and individuals alleged to be helping to lure migrants to Europe as part of a "hybrid attack" against the bloc by President Alexander Lukashenko. (Oksana Manchuk/BelTA pool photo via AP)
50 - 80.000 manns streyma frá Úkraínu til Póllands á degi hverjum eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu Mynd: AP - BelTA
Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna segir fólksflóttann frá Úkraínu síðustu daga þann mesta sem sést hefur í Evrópu síðan í heimsstyrjöldinni síðari. Aldrei hafa jafn margir flúið eitt og sama landið á jafn skömmum tíma og nú.

Samkvæmt upplýsingum Flóttamannastofnunarinnar hafa á fjórtánda hundrað þúsunda flúið Úkraínu eftir að Rússar réðust inn í landið með vígvélar sínar og hófu þar stórsókn gegn nokkrum helstu borgum, þar á meðal höfuðborginni Kænugarði. Sérfræðingar stofnunarinnar gera ráð fyrir að yfir 1,5 milljónir verði flúnar áður en helgin er á enda.

Filippo Grandi, framkvæmdastjóri Flóttamannastofnunarinnar, segir í samtali við Reuters að þetta sé mesti og örast vaxandi flóttamannavandi í Evrópu frá lokum seinna stríðs.

Rúmlega helmingur þeirra sem þegar hafa flúið land, um 750.000 manns, leituðu skjóls í Póllandi. Hátt á annað hundrað þúsund hafa flúið til Ungverjalands og tugir þúsunda til Moldóvu, Slóvakíu, Rúmeníu og fleiri landa.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna áætlar að yfir fjórar milljónir muni flýja Úkraínu á næstu mánuðum, ef árásum Rússa linnir ekki.