Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Enn fjölgar fyrirtækjum sem hætta starfsemi í Rússlandi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Greiðslukortarisarnir Visa og Mastercard tilkynntu á laugardag að þau ætli að hætta allri starfsemi í Rússlandi. Þar með bætast þau í stóran og vaxandi hóp bandarískra og evrópskra fyrirtækja, sem hafa hætt starfsemi og viðskiptum í og við Rússland eða boðað slíka stöðvun vegna innrásar Rússa í Úkraínu.

 

Í tilkynningu frá Mastercard segir að fyrirtækið hafi tekið þessa ákvörðun í ljósi yfirstandandi átaka og ríkjandi óvissu í rússnesku efnahagslífi. Í yfirlýsingu Visa segir að fyrirtækið ætli að hætta starfsemi í Rússlandi „án tafar“ og vinna að því í samvinnu við rússneska samstarfsaðila sína að leggja hana niður.

Virka enn í Rússlandi

Þótt kort sem gefin eru út í Rússlandi virki ekki utan Rússlands, og kort sem gefin eru út utan Rússlands virki ekki þar í landi, munu Visa- og Mastercard-kort sem gefin eru út af rússneskum bönkum virka áfram innan Rússlands þar til gildistími þeirra rennur út, segir í yfirlýsingu rússneska seðlabankans.

Fjöldi stórfyrirtækja yfirgefur Rússland

Fjöldi alþjóðlegra stórfyrirtækja hefur hætt starfsemi í Rússlandi og viðskiptum við Rússa eftir að innrásin í Úkraínu hófst. Má þar nefna olíurisana ExxonMobil, Shell og BP, bílaverksmiðjurnar VW, Mercedes-Benz, BMW, Honda, Volvo og General Motors, tölvu- og hátæknirisana Microsoft, Dell, Apple, Oracle og Samsung, og eitt stærsta farskipafélag heims, Maersk.

Fed Ex og UPS stunda heldur ekki flutninga til og frá og innan Rússlands, og IKEA hefur lokað öllum sínum verslunum í Rússlandi, en þær skipta hundruðum. Fjöldi fata- og tískuvöruverslana og -framleiðenda hafa gripið til sambærilegra aðgerða. Þar má nefna H&M, Zara, lúxusverslanirnar Chanel og Hermés og íþróttavöruframleiðandan Nike og svona má lengi áfram telja.

Bankar og fjármálafyrirtæki hafa líka hætt eða dregið mjög úr viðskiptum og samskiptum við rússneska fjármálakerfið, og vegur þar þyngst að lokað hefur verið á aðgang rússneskra banka að alþjóðlega greiðslu- og millifærslukerfinu SWIFT.