Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Ástandið hrikalegt í Úkraínu og margir þjást

05.03.2022 - 12:39
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - R'UV
Úkraínski stórmeistarinn Mikhaylo Oleksiyenko segir ástandið heima fyrir hrikalegt og margir þjáist. Hann kallar eftir að lofthelgi Úkraínu verði lokað því sprengjum sé varpað á íbúðarhús, skóla og sjúkrahús.

Mykhaylo  býr í Lviv. Fyrir réttri viku ákváðu hann og kona hans að flýja ásamt þremur ungum börnum. Með í för var systir hans með tveimur sonum, móðir, stjúpi og 86 ára afi, alls ellefu manns. Mágur hans ákvað að verða eftir og ganga í herinn. Þar sem Mykhaylo er þriggja barna faðir er hann ekki skyldugur að gegna herþjónustu. Seint á sunnudagskvöld komust þau yfir landamærin til Póllands þar sem pólsk fjölskylda tók þau inn og er fjölskylda hans því óhult. Pólverjar hafi tekið úkraínskum flóttamönnum opnum örmum. 

„Fjölskyldan sem hýsti okkur talar pólsku og við tölum úkraínsku  en við þurfum engan túlk, við skiljum hvert annað.  Það er ótrúlegt,“ segir Mykhaylo.

Fjölskylda konu hans er hins vegar enn föst í Úkraínu, afar og ömmur sem ekki geta ferðast og segir hann þau hafa miklar áhyggjur. 

„Það er mikil innri barátta.  Það er erfitt að vera óhultur  hér í einu ríkasta landi heims, Íslandi, og vita að nánir vinir og ættingjar eru í mikilli hættu.  Það er erfitt að ná utan um það án þess að fá sektarkennd.“

Þegar Mikhaylo var kominn til Póllands rifjaðist upp fyrir honum að hann átti boð á Íslandsmót skákfélaga, en hann teflir fyrir Taflfélag Reykjavíkur og ákvað að koma hingað, því hann gæti lagt þjóð sinni lið með því að senda peninga heim og talað máli hennar hér.  

Hann segir ástandið heima fyrir hrikalegt, en barátta heimamanna sé hetjuleg. Hann sjái ekki fyrir sér hvernig hægt sé að stöðva Pútín Rússlandsforseta sem sé stríðsglæpamaður og hryðjuverkamaður sem fyrirskipi árásir á óbreytta borgara, skóla, sjúkrahús og fleira. Mikhaylo kallar því eftir að lofthelgi Úkraínu verði lokað.

Hann segir sig og fjölskyldu í mun betri stöðu en margir landar þeirra, þau komi frá tiltölulega friðsælu svæði og geti séð sér farborða.

„Mjög margt fólk þarf hjálp núna.  Ég sá móður með þrjú börn fara yfir landamærin  og eitt þeirra var kornabarn.  Faðirinn var ekki með. Og þau voru gangandi, ekki á bíl.  Þau þurfa hjálp, húsaskjól, mat og svo framvegis.  Ég held að stutt leit á Google geti hjálpað öllum að finna hvernig þau geta lagt sitt af mörkum til bágstaddra.“

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV