Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Viðurkennir innbrot í bíl Reynis og skrifstofu Mannlífs

04.03.2022 - 23:33
Mynd með færslu
 Mynd: Sigtryggur Ari Jóhannsson - Frjáls fjölmiðlun
Kristjón Kormákur Guðjónsson, blaðamaður og ritstjóri vefmiðilisins 24.is, játaði í kvöld að hafa brotist inn í bíl Reynis Traustasonar, ritstjóra mannlífs.is, og inn á ritstjórnarskrifstofu mannlífs í framhaldinu, þar sem hann stal tveimur tölvum og eyddi svo öllum gögnum, fréttum og öðru ritstjórnarefni af þeim og vef mannlífs. Kristjón Kormákur játaði þetta og baðst afsökunar á gjörðum sínum í viðtali við Reyni Traustason, sem birt var á mannlíf.is í kvöld.

„Ég biðst afsökunar á þessu og verst að vera ekki með eitthvað af þessum munum. Ég held að þeir muni skila sér;“ segir Kristjón í viðtalinu.

Hann segir Róbert Wessman, stofnanda og forstjóra lyfja- og líftæknifyrirtækjanna Alvotech og Alvogen hafa fjármagnað rekstur vefmiðilsins 24.is með 3,7 milljón króna mánaðarlegu framlagi.

Róbert var mjög til umfjöllunar á vef Mannlífs, með afar gagnrýnum hætti, og fram hefur komið Reynir var með bók um viðskipti hans og umsvif í smíðum þegar brotist var inn á ritstjórnarskrifstofuna og öllu efni stolið þaðan.

Kristjón neitar því þó að hafa stolið tölvunum og eytt gögnunum að undirlagi Róberts. Segist hann hafa litið á Róbert sem vin sinn. Draumur hans hafi alltaf verið að stofna fjölmiðil og Róbert hefði gert honum það mögulegt.

Hann hafi því viljað endurgjalda honum greiðann með þessum hætti, enda hafi hann verið sannfærður um að fréttaflutningur Mannlífs af Róbert og umsvifum hans hafi verið ósanngjarn og meiðandi, og hann sjálfur í liði með „þeim góðu." 

Auk þess hafi Mannlíf dreift því sem Kristjóni þótti ómaklegar sögusagnir af honum sjálfum, og því hafi innbrotið líka verið einhvers konar misráðin hefndaraðgerð, en Kristjón segist hafa verið á „vondum stað“ í tilverunni þegar hann greip til þessa örþrifaráðs. 

Þeir Reynir og Kristjón eru gamlir félagar og samstarfsmenn og segist Reynir taka afsökunarbeiðni Kristjóns góða og gilda og fyrirgefa honum yfirsjónina. Hins vegar sé eitt og annað órannsakað enn og þetta gildi ekki endilega um aðra sem tengist málinu. 

Vefmiðillinn 24.is fór í loftið í fyrra haust en miðillinn komst í fréttir fyrir skemmstu vegna rekstrarerfiðleika og vangoldinna launa. Hann liggur nú niðri.