Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Steypt í sprungur El Grillo og flotkvíar settar upp

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Fimmtíu milljónum króna verður varið til aðgerða vegna olíuleka frá hinu sokkna skipi El Grillo í Seyðisfirði. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis. Keyptar verða flotkvíar til að fanga olíubrák frá El Grillo ef olía berst áfram upp á yfirborðið. Þá verður þess freistað í sumar að steypa í sprungur á tveimur tönkum skipsins til að stoppa olíulekann.

Fram kemur í tilkynningunni að ráðuneytið muni fjármagna aðgerðirnar. Þá er bent á að olíumengun frá flaki flutningaskipsins El Grillo sem liggur á botni Seyðisfjarðar, hafi verið viðvarandi vandamál undanfarin sumur, þrátt fyrir að ráðist hafi verið í umfangsmiklar hreinsunaraðgerðir 2001.

Olíuleki í 78 ár

Breska olíubirgðaskipinu El Grillo var sökkt í loftárás þýskra flugvéla í febrúar árið 1944, þegar seinni heimsstyrjöld stóð hvað hæst. Fljótlega fór að bera á olíuleka úr skipinu. Ráðist var í aðgerðir til að dæla olíu úr skipinu árið 1952 og 2001. Þrátt fyrir það hefur olía lekið úr skipinu alla lýðveldissöguna, þótt með hléum sé. Þannig barst töluverð olía frá flakinu síðasta sumar. Ráðuneytið stofnaði þá vinnuhóp, sem í áttu sæti, auk ráðuneytisins: Umhverfisstofnun, Landhelgisgæslan og Múlaþing.  

Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, fagnar því að nú hafi ráðuneytið ákveðið að hrinda í framkvæmd tillögur starfshópsins. 

„Ég bara fagna þessu. Þetta er í rauninni í samræmi við þær tillögur sem starfshópurinn lagði fram í haust,“ segir Björn.

Þannig að þetta væntanlega breytir miklu?

„Það sem þetta gerir er það að það er hægt að fara núna fyrir sumarið í þessar bráðaaðgerðir sem flotgirðingin og búnaður tengdur henni gerir ráð fyrir. Þá erum við að ná að fanga þann leka sem er alveg fyrirsjáanlegur og verður alltaf við hlýnun sjávar þegar kemur inn á sumarið. Jafnframt er hægt að halda áfram þeim aðgerðum sem var farið í áður varðandi það að steypa fyrir lekann sem er við tanka skipsins. Þetta er verkefni sem er þá farið í með Landhelgisgæslunn og er í undirbúningi. Það er bara mjög ánægjulegt að það skuli vera hægt að bregðat við þessu og halda þessu verki áfram,“ segir Björn.

Áfram leitað að framtíðarlausn

Haft er eftir umhverfisráðherra í fréttatilkynningunni að hann vonist til að gerðirnar komi í veg fyrir olíumengun: „Við munum jafnframt leita leiða til að tryggja framtíðarlausn, þannig að engin hætta sé á leka.“

Björn segir ýmislegt til skoðunar varðandi varanlegar lausnir. „Þar eru menn að ráðfæra sig við nágranna okkar á Norðurlöndunum og eins og Bretlandseyjum varðandi hvaða leiðir eru bestur. Það að taka skipið upp er einn af valkostunum. En mér hefur heyrst á sérfræðingum að það verði kannski ekki skynsamlegasta leiðin. Einn af valkostunum er að fergja skipið alfarið,“ segir Björn.