Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Skagstrendingar mynduðu manngert friðarmerki

04.03.2022 - 09:32
Mynd: RÚV / RÚV
Tugir Skagstrendinga kom saman í hádeginu í gær og myndaði manngert friðarmerki. Forsprakki hópsins sem skipulagði viðburðinn segir að skilaboðin séu ósk bæjarbúa um frið í heiminum.

Gleðibankinn sá um skipulagningu

Í hádeginu í dag voru allir Skagastrendingar hvattir til að fjölmenna á íþróttavöllinn í bænum og mynda manngert friðarmerki. Merkið var myndað úr lofti og er því ætlað að hvetja til friðar með táknrænum hætti. Félagasamtökin Gleðibankinn, sem stofnuð voru 2008 til að auka jákvæðni og draga úr niðurdrepandi krepputali og bölsýni, stóðu fyrir gjörningnum.

Fólk á öllum aldri tók þátt

Ólafur Bernódusson er bankastjóri Gleðibankans. „Það var alltaf voðalega dauft yfir öllu svo við stofnuðum Gleðibankann. Gleðibankinn stóð fyrir þessu núna, að mynda þetta mannlega friðarmerki eða peace-merki sem við tókum upp á dróna og ætlum að síðan að setja tónlist við og senda út í kosmósið á veraldarvefnum,“ segir Ólafur. 

Hvernig gekk þetta hjá ykkur?

„Heyrðu þetta gekk alveg glimrandi vel í hádeginu. Við fegnum krakkana úr skólanum til að vera tryggir um að það kæmi nú einhver. En þau voru ekki nema tæplega helmingur. Fólk tók þessu mjög vel og mætti bara úr vinnunni sko. Það var ekki verið að pota í neinn, við viljum bara frið.“

Mynd með færslu
 Mynd: Árni Geir Ingvarsson - RÚV
Skagstrendingar fjölmenntu