Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Safna fyrir Úkraínu með því að selja teikningar

04.03.2022 - 19:55
Mynd: Anna Þorbjörg Jónasdóttir / RÚV
Tveir tíu ára strákar hafa lagt fé í söfnun Unicef til aðstoðar fólki í Úkraínu. Peninganna öfluðu þeir með því að selja eigin teikningar. 

Hræddur við heimsstyrjöld

Kjartani Gesti Guðmundssyni og Helga Hrafni Magnússyni þykir mjög gaman að teikna. Þeir hafa undanfarna mánuði selt myndir eftir sjálfa sig og lagt peningana til hliðar. Þegar Rússar réðust inn í Úkraínu vildu þeir að peningarnir færu í að aðstoða Úkraínumenn með því að styrkja söfnun Unicef.
 
„Við viljum bara að Úkraína fái mikinn pening til að flýja þetta og stoppa heimstyrjöld. Venjulega hugsa ég ekki mikið um heimsstyrjöld en ég bara frekar hræddur núna sko,“ segir Kjartan.

Hvað mynduð þið gera ef þið væruð börn í Úkraínu? „Við myndum held ég reyna að flýja,“ segir Helgi.

Vilja setja heimsmet í að teikna skó

Félagarnir hafa mikinn áhuga á strigaskóm og eru þeir aðalmyndefnið þessa dagana. Þeir hafa líka áhuga á að setja heimsmet í að teikna skó.

„Okkur bara langaði að slá heimsmetið en við vitum ekki einu sinni hvað heimsmetið er en okkur datt þetta bara í hug,“ segir Kjartan. 

Helgi segir að þeir séu búnir að selja mjög margar myndir og þær kosti frá 100 til 1000 króna. 

Söfnuðu rúmum 26.000 krónum

Strákarnir nota vetrarfríið sitt til að fara í bæinn og selja myndirnar. Þeir ganga í verslanir og á kaffihús og bjóða teikningarnar til kaups.

„Við geymum peningana fyrir Úkraínusöfnuninni í þessum kistli en nú er þar bara kvittunin,“ segir Kjartan. 

„Við söfnuðum 26.192 krónur sem við lögðum í bankann. Peningarnar fara til Úkraínusöfnunarinnar,“ segir Helgi.