Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Vilja vera tilbúin áður en skemmtiferðaskipunum fjölgar

Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Skemmtiferðaskip hafa verið sjaldgæf sjón á Akranesi en það gæti verið breytast. Skagamenn búa sig undir að taka á móti ferðamönnum af skipunum.

Það er ávallt mikið líf í höfninni á Akranesi, sem hefur þó fremur einkennst af fiskveiðum en ferðamennsku. Í fyrra lögðust skemmtiferðaskip sjö sinnum að bryggju á Akranesi. Margrét Björk Björnsdóttir, sviðsstjóri markaðssviðs samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, segir að það gæti breyst. Aukinn áhugi sé á því að skemmtiferðaskip komi þar við.

„Þá er gott að vera tilbúinn þegar það er bankað upp á en ekki að við séum að vinna vinnuna eftir á þegar fullt af fólki er komið og við vitum ekkert hvernig á að taka á móti því,“ segir hún.

Því sé verið að þróa leiðarvísi um móttöku skemmtiferðaskipa í samstarfi við Akraneskaupstað og Faxaflóahafnir sem hluta af samnorrænu verkefni. Litið er til smærri skipa, enda ekki pláss fyrir stór skemmtiferðaskip í Akraneshöfn. Aðalatriðið sé að stýra ferðafólkinu svo það fái sem besta upplifun og heimamenn verði ekki fyrir ónæði.

„Við höfum lent í því þar sem eru til dæmis gömul og falleg hús uppgerð í bæjunum að fólk bara leggist á gluggana og jafnvel labbi inn í húsin og haldi að þetta sé eitthvað safn. Gerir sér ekki alveg grein fyrir hvað er í landi þar sem það er að koma í land.“ 

Þá verði litið til þess hvernig megi halda ferðamönnum á Akranesi og missa þá ekki í burtu í þann stutta tíma sem þeir staldra við. 

„Fólki er keyrt eitthvert út úr bænum eins og heimamenn segja að þeir sitji oft bara eftir í púströrsreyknum þegar það koma skemmtiferðaskip en ekkert verði eftir á heimaslóð.“