Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Rússar hafa hertekið úkraínsku hafnarborgina Kherson

03.03.2022 - 06:49
epa09787700 A handout satellite image made available by Maxar Technologies shows Russian ground forces assembled in Nova Kakhovka, Kherson region, Ukraine, 26 February 2022. According to Maxar, ground forces were deployed at and near the Kakhovka hydroelectric plant on the Dnieper River in southern Ukraine. Released satellite imagery states that forces were seen on the southern bank of the river at the power plant while a large number of additional armored vehicles and trucks were gathered less than one kilometer away.  EPA-EFE/MAXAR TECHNOLOGIES HANDOUT -- MANDATORY CREDIT: SATELLITE IMAGE 2022 MAXAR TECHNOLOGIES -- THE WATERMARK MAY NOT BE REMOVED/CROPPED -- HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
Gervihnattamynd sýnir rússneskan landher í nágrenni úkraínsku hafnarborgarinnar Kherson Mynd: EPA-EFE - MAXAR TECHNOLOGIES
Rússneski herinn hefur hertekið úkraínsku hafnarborgina Kherson í landinu suðaustanverðu, skammt frá Krímskaga. Borgaryfirvöld staðfesta þetta. Kherson er fyrsta stóra borgin sem Rússar ná á sitt vald eftir að þeir réðust inn í Úkraínu hinn 24. febrúar síðastliðinn. „[Rússneska] hernámsliðið er um alla borg og er mjög hættulegt,“ skrifaði héraðsstjórinn Gennady Lakhuta á samfélagsmiðlinum Telegram seint í gærkvöld.

Borgarstjórinn Igor Kolykajev boðaði viðræður borgaryfirvalda við „vopnaða gesti“ borgarinnar. „Við höfðum engin vopn og sýndum enga árásargirni. Við gerðum ljóst að við vinnum að því að tryggja öryggi borgarinnar og reynum að takast á við afleiðingar innrásarinnar,“ skrifar borgarstjórinn á Facebook.

Eiga í erfiðleikum með að grafa hin látnu

„Við eigum í mjög miklum erfiðleikum með að safna saman og jarðsetja hin látnu, koma mat og lyfjum til fólks, sorphirðu, viðbrögð við slysum og svo framvegis,“ skrifar Kolykajev. Hann segist ekki hafa lofað innrásarhernum neinu, en beðið hermennina „að skjóta ekki fólk.

Borgarstjórinn tilkynnti líka útgöngubann um nætur og takmarkanir á bílaumferð að kröfu innrásarliðsins. „Fáninn sem blaktir yfir borginni er enn úkraínskur, Og til að það verði þannig áfram, þá þurfum við að uppfylla þessi skilyrði,“ sagði borgarstjórinn.

Um 290.000 manns búa í Kherson, sem er við strönd Svarta hafsins. Rússar hafa líka sótt hart að annarri hafnarborg við Svartahafið, Mariupol, en hafa ekki enn náð henni á sitt vald.