
Rússar hafa hertekið úkraínsku hafnarborgina Kherson
Borgarstjórinn Igor Kolykajev boðaði viðræður borgaryfirvalda við „vopnaða gesti“ borgarinnar. „Við höfðum engin vopn og sýndum enga árásargirni. Við gerðum ljóst að við vinnum að því að tryggja öryggi borgarinnar og reynum að takast á við afleiðingar innrásarinnar,“ skrifar borgarstjórinn á Facebook.
Eiga í erfiðleikum með að grafa hin látnu
„Við eigum í mjög miklum erfiðleikum með að safna saman og jarðsetja hin látnu, koma mat og lyfjum til fólks, sorphirðu, viðbrögð við slysum og svo framvegis,“ skrifar Kolykajev. Hann segist ekki hafa lofað innrásarhernum neinu, en beðið hermennina „að skjóta ekki fólk.
Borgarstjórinn tilkynnti líka útgöngubann um nætur og takmarkanir á bílaumferð að kröfu innrásarliðsins. „Fáninn sem blaktir yfir borginni er enn úkraínskur, Og til að það verði þannig áfram, þá þurfum við að uppfylla þessi skilyrði,“ sagði borgarstjórinn.
Um 290.000 manns búa í Kherson, sem er við strönd Svarta hafsins. Rússar hafa líka sótt hart að annarri hafnarborg við Svartahafið, Mariupol, en hafa ekki enn náð henni á sitt vald.