Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Eldur í íbúðarhúsi í Kópavogi

Mynd með færslu
 Mynd: Slökkvilið höfuðborgarsvæð
Engan sakaði þegar eldur kom upp í tveggja hæða íbúðarhúsnæði í Auðbrekku í Kópavogi um þrjúleytið í nótt. Menn og bílar frá öllum stöðvum voru sendir á staðinn og lagði mikinn reyk frá húsinu þegar slökkvilið kom að. Þegar búið var að meta umfang eldsins og ganga úr skugga um að allir væru komnir heilu og höldnu út úr brennandi húsinu var hluti liðsins sendur aftur heim á stöð, að sögn varðstjóra hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.

Mannskapur frá tveimur stöðvum hélt slökkvistarfi áfram og lauk því seint á sjötta tímanum í morgun. Eldurinn var allmikill þegar að var komið en að mestu bundinn við eitt herbergi sem er gjörónýtt. Nokkrar brunaskemmdir urðu líka utan á húsinu og á ganginum við herbergisdyrnar, auk þess sem mikinn reyk lagði um allt.

Húsið er fyrrverandi skrifstofuhúsnæði sem breytt hefur verið í leiguhúsnæði. Fjórtán voru þar inna dyra þegar eldsins varð vart. Þau komust öll út, sem fyrr segir, og  tók Rauði krossinn þau undir sinn verndarvæng. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV