Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Geta ekki flúið stríðið og leita skjóls í baðkörum

02.03.2022 - 21:00
Mynd: Þroskahjálp / Fréttir
Þegar stríð geisar gleymist fatlað fólk. Það getur oft ekki flúið og leitað skjóls, einangrast og á erfitt með að verða sér úti um nauðsynjavörur eins og mat og lyf. Upplýsingafulltrúi Þroskahjálpar segir stöðu fatlaðs fólks í Úkraínu grafalvarlega.

Líklegra til að vera skilið eftir og líða skort

Þroskahjálp fundaði í dag með systursamtökum sínum í Evrópu. Meðlimir samtaka í Úkraínu sögðu þar frá reynslu fatlaðs fólks í stríðinu og hvernig megi aðstoða og létta undir með þeim hópi. Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, upplýsingafulltrúi Þroskahjálpar, sat fundinn. 

Hún segir að fatlað fólk sé alltaf mjög berskjaldað í hamförum og stríðsátökum sem þessum. Það er líklegra til að vera skilið eftir, búa við skort og getur ekki bjargað sér úr hættulegum aðstæðum.

„Oft lendir þá á aðstandendum að þurfa algjörlega að hugsa um sig og fatlaða aðstandendur vegna þess að auðvitað hrynja öll kerfi í kringum fólk, öll stoðþjónusta og slíkt hrynur niður. Í einhverjum tilfellum er fólk á stofnunum og er þá bara erfitt að manna heimilin og starfsmennirnir flýja þannig að staðan er bara grafalvarleg.“

Margir einangrist algjörlega og þá getur hávaði og innilokun reynst fólki með þroskahömlun og einhverfu mjög erfið.

Fatlað fólk sem getur ekki leitað skjóls í Úkraínu. Myndir frá Þroskahjálp
 Mynd: Þroskahjálp - Fréttir

Þau sem reiða sig á þjónustu og vélar tengdar rafmagni í lífshættu

Fatlað fólk í Úkraínu á erfitt með að að verða sér úti um mat og nauðsynleg lyf. Víða þarf að bíða í löngum röðum fyrir utan matvöruverslanir sem ekki er á allra færi. Þegar flestir flýja og leita skjóls getur fatlað fólk einnig oft ekki komið sér í öruggt umhverfi, líkt og neðanjarðarbyrgi.

„Þá var fólk hvatt til þess að vera ofan í baðkörum, inni á baðherbergi, í gluggalausum rýmum. Einhverjir hafa verið bornir á hálfgerðum tjaldstólum niður í kjallara og Í neðanjarðarbyrgi en það búa náttúrulega ekki allir við þann kost að það sé hægt. Fatlað fólk sem treystir á til dæmis öndunarvélar sem eru tengdar rafmagni eru auðvitað bara í lífshættu.“

Fatlað fólk sem getur ekki leitað skjóls í Úkraínu. Myndir frá Þroskahjálp
 Mynd: Þroskahjálp - Fréttir

Platað út af heimilum sínum á fölskum forsendum

Úkraínskir fulltrúar á fundinum sögðu að hjólastólamerktur bíll hafi verið sprengdur í loft upp. Allir létu lífið. Þeir sögðu ekki vitað hvort árásin hafi verið tilviljanakennd eða sérstaklega miðuð að fötluðu fólki en það óttast að vera sérstaklega tekið fyrir. Þá eru dæmi um að neyð fólks hafi verið notfærð og það platað út af heimilum sínum á fölskum forsendum.

„Það hefur gerst að það sé verið að kalla úti a götunum að verið sé að gefa brauð, það er mikill matarskortur, fólk telur að þarna séu hjálparsamtök á ferð og fer út til að verða sér út um mat og er þá drepið og þetta verður til þess að fólk þorir ekki að fara út og leita sér aðstoðar.“

Þurfa nauðsynlega fjármagn til að lifa næstu vikur af

Inga segir að veita þurfi sérstaka mannúðaraðstoð til þessara hópa því þeir séu berskjaldaðir í stríði. Þroskahjálp hefur reynt að vekja athygli íslenskra stjórnvalda á skyldu þeirra gagnvart samningi sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þau hafi einnig reynt að þrýsta á stjórnvöld þegar Talíbanar yfirtóku Afganistan, án árangurs.

„Við munum auðvitað halda þeirri baráttu áfram, að vekja athygli stjórnvalda á þeim skyldum sem þau hafa gagnvart þessum hópum. Auðvitað er það þannig að stjórnvöld eiga að hugsa um þá sem eru í langmestu neyðinni en ekki að hugsa um það hverjir það eru sem geta aukið hagvöxt í samfélaginu,“ bætir Inga við.

Inga segir að samtök í nágrannaríkjum Úkraínu hafi boðið fram ýmiss konar aðstoð á fundinum fyrr í dag, bæði akstur og aðgengilegar íbúðir og annan stuðning - það gagnast þó ekki öllum því margt fatlað fólk getur ómögulega flúið. Fjárhagsaðstoð er það sem gagnast mest að mati samtakanna í Úkraínu.

„Það sem fjölskyldurnar þyrftu mest á að halda væri bara fjármagn til þess að geta lifað af næstu vikurnar, til þess að verða sér út um mat og aðrar nauðsynjar. Þetta er eitthvað sem samtökin munu skoða í samstarfi við aðrar hreyfingar fatlaðs fólks, bæði hér á landi og erlendis,“ segir Inga Björk.

Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir
 Mynd: Þór Ægisson
Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir