Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

„Alltaf hægt að leita eitthvert til þess að fá aðstoð“

02.03.2022 - 13:55
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Samkvæmt nýlegri könnun hefur helmingur unglingsstúlkna á grunnskólaaldri verið beðinn um að senda af sér nektarmynd og fjórar af hverjum tíu hafa fengið slíkar myndir sendar. Lögregluþjónn, sem hefur heimsótt grunnskóla og rætt við hundruð barna, segir að þetta sé því miður sá raunveruleiki sem börn í dag búa við.

Ríkislögreglustjóri, Neyðarlínan og lögreglan um allt land hófu á dögunum fræðsluherferð gegn stafrænu ofbeldi. Lögregluþjónarnir Hreinn og Unnar hafa undanfarið heimsótt áttundu bekkinga og frætt þá um gildi samþykkis í stafrænum og kynferðislegum samskiptum.

„Það sem við viljum helst skilja eftir þessa kynningu er að það sé alltaf hægt að leita eitthvert til þess að fá aðstoð,“ segir Unnar Þór Bjarnason, lögregluþjónn.

„Sá raunveruleiki sem þau búa við“

Samkvæmt könnun Fjölmiðlanefndar þekkja börnin langoftast ekki þann sem sendir þeim nektarmyndir eða biður um þær, eða í um 70% tilvika. 

„Þetta er alltaf að aukast, þessar tilkynningar um að krakkar séu að fá þessar óumbeðnu myndsendingar,“ segir Unnar. Þess vegna sé farið í svona átak. „Þetta er bara sá raunveruleiki sem þau búa við.“

Daníel Helgi Pétursson, nemandi í 8. bekk Salaskóla, segir að unglingar í dag séu meðvitaðir um hætturnar sem geta verið á samfélagsmiðlum. „Já, það eru örugglega margir sem vita miklu meira núna en í gamla daga, miklu meira núna.“

Herdís Laufey Guðmundsdóttir, sem er líka í 8. bekk Salaskóla, segir að sumum gæti þótt óþæglegt að leita til lögreglunnar. Þess vegna sé gott að lögreglan komi í skólana, að kynna sig. „Ég held að það sé mjög gott, þá kannski finnst þeim ekki eins óþægilegt að tala við þau,“ segir Herdís Laufey.

Unnar Þór tekur undir þetta. „Við höfum lent í því að þegar við erum búin með kynninguna okkar og hópurinn er farinn að koma sér burt þá hafa börnin komið til okkar og trúað okkur fyrir erfiðum málum sem þau hafa lent í og við höfum náð að leiðbeina þeim með áframhaldið og það er frábært að finna að við njótum trausts hjá þeim,“ segir Unnar Þór.

Hann ítrekar að alltaf sé hægt að leita til lögreglunnar, nota 112-appið, 1717-hjálparsíma Rauða krossins, eða ræða við foreldra, kennara eða annan fullorðinn sem barnið treystir.