Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Þurfum að sætta okkur við kostnað efnahagsþvingana

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
 Mynd: Þór Ægisson
Fjármálaráðherra segir að Íslendingar verði að sætta sig við áhrif af efnahagsþvingunum gegn Rússum. Þvinganir sem beitt var 2014 hafi verið of bitlausar. Þó heildaráhrif á íslenskan efnahag séu takmörkuð séu þau veruleg fyrir einstök tækni- og þjónustufyrirtæki í sjávarútvegi.

 

Síðasta heila árið fyrir innflutningsbann gagnvart Íslandi, sem Rússar settu 2015, nam útflutningur á vörum og þjónustu til Rússlands 37,6 milljörðum króna, mest vegna sölu sjávarafurða. Áhrif þessara mótaðgerða Rússa, í kjölfar efnahagsþvingana sem beitt var þegar þeir innlimuðu Krímskaga árið 2014, eru greinileg því árið 2020 nam heildarinnflutningur á vörum og þjónustu til Rússlands 6,6 milljörðum sem er heldur minna en árin fyrir heimsfaraldurinn. Hverjar aðfleiðingarnar verða nú er óljóst. Þetta kemur fram í minnisblaði um viðskiptahagsmuni Íslands sem utanríkisráðneytið vann. Viðskipti við Úkraínu liggja niðri vegna innrásar Rússa en mörg sjávarútvegsfyrirtæki fluttu viðskipti sín að stórum hluta frá Rússlandi til Úkraínu. 

Helstu viðskipti sem Ísland hefur átt við Rússland síðustu ár eru sala, hönnun, uppsetning og þjónusta á tækjabúnaði í rússneskum sjávarútvegi. Þar er allt stopp. Rússnesku fyrirtækin sem skipt er við geta ekki greitt í erlendum gjaldmiðlum sem stendur vegna falls rúblunnar. Forsvarsmenn þeirra fyrirtækja sem fréttastofa ræddi við segjast að svo stöddu verða að bíða og sjá hvernig málin þróast en ef ekki leysist úr sé ljóst að höggið getið orðið þungt fyrir einhver þeirra.

„Við verðum að sætta okkur við einhver áhrif, við verðum að vera tilbúin til að fórna einhverju til að senda skilaboðin og það á bara eftir að skýrast betur hvað það verður,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.

Bjarni segist fullviss um að rétt sé að beita svo hörðum efnahagsþvingununum. „Ég hef alls engar efasemdir og ég er mjög ánægður með að það hefur tekist mjög breið, víðtæk samstaða um að gera miklu meira en við höfum áður gert enda hefur það oft verið gagnrýnt að sumt af því sem að var gert við innlimun Krímskaga hafi verið of bitlaust.“