Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Stjórnvöld borguðu fyrir flutning hergagna til Úkraínu

28.02.2022 - 12:19
Mynd með færslu
 Mynd: Kveikur - RÚV
Íslensk stjórnvöld borguðu fyrir flutning á búnaði til notkunar í Úkraínu, meðal annars hergögn sem úkraínski herinn getur notað til að verjast innrás Rússa. Vél frá íslenska flugfélaginu Air Atlanta flutti búnaðinn til áfangastaðar sem er sagður vera nálægt landamærum Úkraínu.

Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, segir í samtali við fréttastofu að hann hafi ekki nákvæmar upplýsingar um hvar vélin lenti. 

Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu kemur fram að á síðustu dögum hafi borist ákall um aðstoð frá Úkraínu vegna neyðarástandsins sem hefur skapast vegna innrásar Rússa. „Beiðni frá úkraínskum stjórnvöldum barst til vina- og bandalagsþjóða þar á meðal Íslands. Var þar óskað eftir ýmis konar aðstoð, hergögnum, hlífðarbúnaði, hjúkrunarvörum og fleiru.“

Ráðuneytið segir að vilji íslenskra stjórnvalda hafi staðið mjög eindregið til þess að leggja úkraínsku þjóðinni lið. Eðli málsins samkvæmt búi Ísland ekki yfir neinum hergögnum eða sérhæfðum búnaði. Því hafi verið ákveðið að leggja til not af fraktflugvél sem leigð var af Air Atlanta.

Framkvæmdin er sögð að hafa heppnast í alla staði vel og búnaðinum um borð komið í dreifingu til þeirra sem á þurfa að halda.

Evrópusambandið tilkynnti um helgina að það ætlaði að fjármagna kaup og flutning vopna til Úkraínu. Þá hafa bæði Hollendingar og Þjóðverjar sent vopn til Úkraínu.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV