Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Vill koma upp fiskeldi á Raufarhöfn

27.02.2022 - 08:02
Mynd með færslu
 Mynd: Kveikur - RÚV
Félagið Björg Capital hefur lýst yfir áhuga á að koma upp tíu þúsund tonna fiskeldi á Raufarhöfn. Sveitarstjóri Norðurþings segir mikilvægt að skella engum hurðum þegar svo stór verkefni rekur á fjörur sveitarfélagsins.

Bæði land- og sjóeldi

Fiskeldið yrði þar sem Síldarvinnsla ríkisins var áður til húsa. Síðustu tíu ár hefur svæðið verið í umsjá sveitarfélagsins. Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri í Norðurþingi, segir að erfitt hafi reynst að byggja þar upp starfsemi. Björg Capital hefur nú lýst yfir áhuga á að kaupa fasteignir á lóðinni. 

„Það sem er svona einna helst í deiglunni hjá þeim er að setja á laggirnar fiskeldi, bæði land- og sjóeldi. Seiðaeldi á landi og tímabundið laxeldi í sjó hluta úr ári,“ segir Kristján.

Hátt í hundrað störf

Félagið Arctic Circle Salmon, sem er í eigu Bjargar Capital, myndi annast rekstur eldisins.

„Það er verið að tala um að þarna væri möguleiki á að byggja allt að 10.000 tonna eldi á ári, sem er umtalsvert. Þarna er verið að tala um að ef það gengi eftir eru það örugglega hátt í hundrað störf,“ segir Kristján.

„Mikilvægt að skella engum hurðum“

Íbúafundur var haldinn á Raufarhöfn til að kanna áhuga íbúa á slíkri uppbyggingu. Næstu skref yrðu meðal annars viðræður við stjórnvöld um breytingar á reglum um blandað eldi og að tryggja nægilegt vatn fyrir starfsemina. Gert er ráð fyrir að ferlið taki mörg ár.

Kristján segir að áður en sveitarfélagið afsalar sér lóðinni þurfi að vera búið að skoða alla fleti á málinu.

„Það er mikilvægt að skella engum hurðum þegar svona hugmyndir rekur á okkar fjörur. Það er ekki hverjum degi sem það koma aðilar inn í samfélög og sjá fyrir uppbyggingu á þessum grunni.“