Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Mannúðaraðstoð rædd í Brussel

27.02.2022 - 19:08
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend - Facebook
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra er í Brussel þar sem hann sótti fund dóms- og innanríkisráðherra af ESB og Schengen-svæðinu. Í samtali við fréttastofu segir hann mikinn samhljóm hafa verið meðal fundarmanna, en fundurinn var fyrst og fremst upplýsingarfundur. 

 

„Það eru allir sammála um mikilvægi þess að grípa til ráðstafana og bregðast við þessari alvarlegu stöðu,“ segir Jón og nefnir mikilvægi þess að útvega lyf og hjálpargögn auk þess að koma flóttafólki til aðstoðar. Þar muni ekki standa á Íslendingum.

Íslensk stjórnvöld munu taka á móti fólki frá Úkraínu sem hefur þörf fyrir vernd og aðstoð og er unnið að því í samstarfi við nágrannaþjóðir.

Hann nefnir þó sérstaklega áhyggjur af því að flóttafólk annars staðar frá misnoti sér þær tilslakanir sem nágrannaríki Úkraínu hafa gert á landamærum sínum til að komast yfir landamærin. „Mörg lönd sem hafa áhyggjur af því að fólk sem hefur ekki heilindin með sér sé að nota þetta tækifæri til að komast inn í Evrópu.“

Staðan breytist hratt í Úkraínu og annar fundur í Brussel er á dagskrá síðar í vikunni.

 

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV