Ásgeir H. Ingólfsson skrifar:
Fyrir okkur fastagestina á Berlinale kvikmyndahátíðinni var hátíðin í ár nett sjokk. Hið sögufræga en uppavædda Potsdamer Platz, höfuðvígi hátíðarinnar, er afskaplega draugalegt miðað við fyrri ár, ófáir staðir eru að nýta tækifærið til framkvæmda og ekkert er á sama stað og síðast. Það þarf þrjár bólusetningar og próf á hverjum degi til að komast í bíó með grímur í sali sem eru aðeins hálffullir. Covid-prófið er svo tekið í endurhönnuðum strætó.
Veðrið ákveður svo að vera með í hamfarastemmningunni undir lokin og á brestur einn versti stormur sem skollið hefur á þessum hluta Evrópu í áraraðir, sem þýðir svosem ekki nema slagviðri í Berlín – en líka að ótal lestum er frestað, síðustu fimm daga hátíðarinnar er varla fært frá borginni. Ástæðan skilst mér að sé aðallega öll tréin sem hrynja á lestarteinana. Versta slysið var þó tískuslys, hinum gullfallegu Berlinale-töskum var skipt út fyrir magatöskur sem ekki nokkur maður notaði.
En heimsfaraldur og ofsaveður kemur ekki í veg fyrir gott bíó og strax á fyrsta kvöldinu er blaðamannasýning á Berdreymi eftir Guðmund Arnar Guðmundsson. Hann hefur áður sent frá sér Hjartastein og stuttmyndirnar Ártún og Hvalfjörð. Allt fínustu myndir, en engar þeirra kannski mikil tíðindi, maður hafði séð þetta flest áður. Krummaskuðið Ísland með ringluðum unglingum.
En Berdreymi er risastórt stökk fram á við. Enn eru unglingsstrákar í aðalhlutverkum, við erum stödd rétt fyrir eða í kringum síðustu aldamót, en núna er Guðmundur virkilega búinn að finna sína rödd og sína sögu. Hér er dýpt og flækjustig sem er sjaldséð í íslenskum bíómyndum, en þó er sagan í raun einföld í grunninn.
Þetta er Reykjavíkurmynd og norðmaðurinn Sturla Brandth Grøvlen, einn flinkasti kvikmyndatökumaður heims, heldur áfram að gæða Ísland lífi – í þetta sinn birtist okkur líflegt og fjölbreytt borgarlandslag, mest í Vesturbænum, sem aldrei hefur litið betur út á hvíta tjaldinu.