Evrópusambandið ætlar að fjármagna kaup og flutning vopna til Úkraínu. Þetta er í fyrsta sinn í sögu sambandsins sem slíkt er gert.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, tilkynnti þetta á blaðamannafundi síðdegis og sagði hún ákvörðunina marka vatnaskil.
Þá tilkynnti hún bann við umferð rússneskra flugvéla í allri lofthelgi Evrópusambandsins. Fjölmörg ríki innan og utan ESB, þar á meðal Ísland, höfðu þegar tilkynnt um slíkt bann.
Von der Leyen upplýsti einnig um fleiri refsiaðgerðir gegn bæði Rússum og Hvít-Rússum.