Ingólfur Bjarni Sigfússon fréttamaður og Ingvar Haukur Guðmundsson dagskrárgerðarmaður RÚV fóru frá Kænugarði í gær og eru nú í Lviv, sem er nærri landamærunum að Póllandi.
„Hingað hefur fólksstraumurinn legið. Við vorum um sólarhring á leiðinni hingað, rúmlega 500 kílómetra leið, vegna þess að hraðbrautirnar hérna eru hreinlega eins og Þorláksmessutraffík í Reykjavík. Það kemst enginn neitt áfram. Meðfram götunum var fólk fótgangandi og meira að segja á hjólum og rafskutlum. Fólk reynir allt til þess að komast í burtu og aðstæðurnar á landamærunum bera vott um þetta,“ sagði Ingólfur Bjarni í hádegisfréttum.
Hundrað þúsund flóttamenn hafa komist yfir landamærin til Póllands, sem eru raunar opin, en það er um sólarhrings bið til þess að komast í gegnum úkraínska landamæraeftirlitið og pappírsvinnuna.
Fólk býr sig undir að eitthvað fari að gerast
Ingólfur Bjarni segir að daglegt líf sé nokkuð óraskað í Lviv sem stendur.
„Ætli þetta sé ekki svolítið eins og daginn sem við komum til Kænugarðs, daginn áður en árásirnar hófust. Fólk er hérna á götum, fer í stórverslanirnar sem eru opnar. Það er ekkert verið að hamstra en aðrar verslanir, veitingastaðir og önnur þjónusta er nú samt lokuð hér. Það er ekki að sjá annað en að fólk sé farið að búa sig undir að hér gæti eitthvað gerst.“