Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

„Fólk reynir allt til þess að komast í burtu“

26.02.2022 - 12:55
Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson / RÚV
Barist er á götum úti í höfuðborginni Kænugarði og yfirvöld hvetja fólk til að leita skjóls nú á þriðja degi innrásar Rússa. Einnig er barist í borginni Odesa í suðri, í Kharkiv í  norðri og loftárásir hafa verið gerðar á borgina Lviv í vestri. Þetta kom fram í ávarpi Volodymyrs Zelenský forseta í morgun. 

Ingólfur Bjarni Sigfússon fréttamaður og Ingvar Haukur Guðmundsson dagskrárgerðarmaður RÚV fóru frá Kænugarði í gær og eru nú í Lviv, sem er nærri landamærunum að Póllandi. 

„Hingað hefur fólksstraumurinn legið. Við vorum um sólarhring á leiðinni hingað, rúmlega 500 kílómetra leið, vegna þess að hraðbrautirnar hérna eru hreinlega eins og Þorláksmessutraffík í Reykjavík. Það kemst enginn neitt áfram. Meðfram götunum var fólk fótgangandi og meira að segja á hjólum og rafskutlum. Fólk reynir allt til þess að komast í burtu og aðstæðurnar á landamærunum bera vott um þetta,“ sagði Ingólfur Bjarni í hádegisfréttum.

Hundrað þúsund flóttamenn hafa komist yfir landamærin til Póllands, sem eru raunar opin, en það er um sólarhrings bið til þess að komast í gegnum úkraínska landamæraeftirlitið og pappírsvinnuna. 

Fólk býr sig undir að eitthvað fari að gerast

Ingólfur Bjarni segir að daglegt líf sé nokkuð óraskað í Lviv sem stendur.

„Ætli þetta sé ekki svolítið eins og daginn sem við komum til Kænugarðs, daginn áður en árásirnar hófust. Fólk er hérna á götum, fer í stórverslanirnar sem eru opnar. Það er ekkert verið að hamstra en aðrar verslanir, veitingastaðir og önnur þjónusta er nú samt lokuð hér. Það er ekki að sjá annað en að fólk sé farið að búa sig undir að hér gæti eitthvað gerst.“

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend - RÚV
Ingólfur Bjarni, Ingvar Haukur ásamt Sigurði Sóleyjarsyni og fjölskyldu.

Meðal þeirra sem voru með Ingólfi Bjarna og Ingvari í ferðinni frá Kænugarði er Sigurður Sóleyjarsson. Hann fór með eiginkonu og dóttur, sem fæddist fyrir þremur vikum, og var feginn að vera á leiðinni úr landi eftir að hafa verið með hvítvoðunginn í loftárásunum í Kænugarði.

„Miklu erfiðara að sitja og bíða“

„Ég hugsaði með mér: það er miklu erfiðara að sitja og bíða. Og gera ekkert. Það er hræðilegt, það er erfitt. Með krakkann og svo fara hlutirnir að versna, skilurðu?“ segir Sigðurður.

Hann segir erfitt að lýsa því hvernig hafi að verið að flýja með ungabarn undan sprengjuregninu í höfuðborginni. Hann segir óþægilegt að vera umkringdur hermönnum og eins undarlegt að sjá svo marga almenna borgarar vopnbúast. 

„Þetta er ótrúlega skrítið að sjá þetta, þetta er bara „absurd“ sko að stelpan sem vinnur á bókasafninu er komin þarna með AK-47 og gæti verið dáin. Þeir voru ekki að leika sér að þessu. Það er svolítið „spooky“ og við að flýja. Það er ömurleg tilfinning. En þetta er bara staðan, maður þurfti bara að sjá um stelpuna litlu. Maður þurfti bara að fókusa á það,“ sagði Sigurður Sóleyjarson þegar Ingólfur Bjarni Sigfússon ræddi við hann í borginni Lviv í morgun.