Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Fer í sögubækurnar sem einstakt efnahagstímabil

26.02.2022 - 09:08
Mynd: RÚV / RÚV
Öllum takmörkunum var aflétt á miðnætti, bæði innanlands og á landamærum. Fyrsta tilfelli kórónuveirunnar hér á landi greindist seinasta dag febrúarmánaðar árið 2020, og því eru rétt tæp tvö ár síðan veiran byrjaði að hafa áhrif á allt samfélagið.

Með stuttum hléum hafa verið í gildi takmarkanir á samkomum með tilheyrandi efnahagslegum afleiðingum. En nú birtir yfir, þó svo að rauður dagur hafi verið í kauphöllum heimsins í gær vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Spegillinn ræddi við Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóra greiningar Íslandsbanka, og spurði fyrst hvernig þessi tvö ár yrðu færð í efnahagslegar sögubækur.

„Þetta er einstakt tímabil getum við leyft okkur að segja. Það er einstakt bæði vegna þess hvernig áhrifin voru á efnahag þjóðarinnar en líka hvernig við brugðumst við þessu áfalli,“ segir Björn.

Hann segir að fyrir faraldurinn hafi staða íslenska þjóðarbúsins verið allt önnur en fyrir efnahagshrunið árið 2008. Skuldir hins opinbera, fyrirtækja og heimila hafi verið hóflegar og þá hafi gjaldeyrisvaraforði Seðlabankans verið drjúgur.

„Þetta er allt önnur staða og við hefðum aldrei getað verið þetta bjartsýn þó fyrir efnahagskrísuna 2008, eðlilega. Við stóðum vel þrátt fyrir allt, við vorum tilbúin í það að geta að ákveðnu leyti keypt okkur í gegnum þess kreppu þó enginn vissi hversu djúp og hversu langvarandi hún yrði. Hún varði mun lengur en flestir hafi reiknað með á þeim tíma.“ segir Björn.

Hagvöxtur tók við sér um mitt seinasta ár og hefur haldið áfram. Höggið hafi verið mikið fyrir ferðaþjónustuna og aðrar greinar. Það að láta ríkið taka mesta skellinn segir Björn að sé álitið ódýrara en að láta atvinnulífið og heimilin taka hitann og þungan af efnahagslægðinni.

Rætt var við Björn í Speglinum. Pistilinn má heyra hér að ofan.