Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Allt að verða klárt fyrir Söngvakeppnina í kvöld

Mynd: Mummi Lú / RÚV

Allt að verða klárt fyrir Söngvakeppnina í kvöld

26.02.2022 - 12:19

Höfundar

Rúmlega þúsund manns koma saman á grímulausum viðburði í kvikmyndaverinu í Gufunesi í kvöld þar sem fyrri undanúrslit Söngvakeppninnar fara fram. Þá munu fimm lög bítast um að verða á meðal þeirra tveggja sem þjóðin velur áfram í úrslit Söngvakeppninnar 12. mars þegar framlag Íslands í Eurovision 2022 verður valið.

Fyrri undanúrslit Söngvakeppninnar fara fram klukkan 19:45 í kvöld í kvikmyndaverinu í Gufunesi þar sem reist hefur verið mikil Söngvakeppnishöll. Þá munu fimm lög verða flutt og áhorfendur fá að kjósa áfram þau sem þeir vilja sjá í úrslitum. Símakosning hefst um leið og fyrstu flytjendur hefja upp raust sína á sviðinu.

Tvö lög munu fljúga áfram í úrslitin í kvöld og önnur tvö næsta laugardagskvöld en framkvæmdastjórn keppninnar hefur leyfi til að hleypa einu lagi áfram, svokölluðu „einu lagi enn,“ telji hún það einnig eiga erindi í úrslitin. Ef það gerist verður tilkynnt hvaða lag það verður í seinni undanúrslitum næsta laugardag.

Í Kastljósi í gær ræddi Guðrún Sóley Gestsdóttir við þau Gísla Berg framleiðslustjóra RÚV og Björgu Magnúsdóttir sem er einn þriggja kynna keppninnar í ár, um stemninguna fyrir kvöldinu.

Gísli segir að í dag muni hundrað og fimmtíu manns koma saman til að vinna að útsendingu kvöldsins þar sem ekkert verði til sparað. Eftirvæntingin er gífurleg hjá aðstandendum keppninnar, sem ekki hefur verið haldin síðan 2020. „Við erum í gömlu Áburðarverksmiðjunni. Það var búið að útbúa hana sem kvikmyndaver en það sem við þurftum að gera var að hringja í ljósahönnuði, byggingaverkfræðinga, brunaúttektir og auðvitað kynna,“ segir hann.

„Við erum komin með þetta risasvið, samtals fjögur hundruð og tíu fermetra af sviðspöllum og þar af eru hundrað og sjötíu sem eru aðalsviðið, og hundrað og sextíu fermetrar af LED-skjá. Og ofan á sviðinu er geggjað glerspeglagólf sem er glænýtt á Íslandi.“

Í gær tók framkvæmdastjórn Sambands evrópskra sjónvarpsstöðva ákvörðun um að meina Rússum þátttöku í keppninni sem fer fram í Tórínó á Ítalíu í maí, vegna innrásarinnar í Úkraínu. Björg Magnúsdóttir segir að nú séu vissulega skrýtnir tímar í gangi í skugga hörmurlegra atburða síðustu daga. „En keppnin er stofnuð og Evrópusamstarfið gengur út á að við gleðjumst saman, séum vinir, dönsum og syngjum. Það er okkar markmið hér að lyfta gleðinni og ekki veitir af eftir tvö hryllileg ár af covid,“ segir hún.

„Við erum öll bara ótrúlega spennt að geta miðlað smá gleði. Fimm lög keppa í dag og tvö fara beint í úrslitin 12. mars. Þetta er sterk keppni og frábærir flytjendur svo við bara hlökkum til að vera með ykkur næstu þrjú laugardagskvöld,“ segir hún að lokum.

Þau fimm lög sem keppa í kvöld eru:

Don't you know með systkinadúettinum Amarosis

Ljósið með Stefáni Óla

Gía með Haffa Haff

Hjartað mitt með Stefaníu Svavarsdóttur

Með hækkandi sól með Siggu Betu og Elínu

Tengdar fréttir

Tónlist

Lögin í Söngvakeppninni 2022