
Vonskuveður gengur yfir - Hellisheiði og Þrengsli lokuð
Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að veðrið gangi ekki niður fyrr en seint í dag og í kvöld, og þá fyrst suðvestanlands.
Hvað eigið þið von á mikilli veðurhæð?
„Það er spáð víða þetta 20-28 metrum á sekúndu. Þetta byrjar sem slydda og snjór en það er svona að komast yfir í rigningu hérna við suðvesturströndina og það hlánar á Suður- og Vesturlandi. Vestfirðir verða væntanlega í snjókomu í allan dag en Norðurland fær mjög litla úrkomu. Það sem kemur verður snjókoma og það skefur líka."
„Sér fyrir endann á þessu eftir að þetta gengur yfir í kvöld eða eigum við von á fleiri lægðum næstu daga eða viku?"
„Það er útlit fyrir að veðrið róist um helgina, það er að segja þetta gengur svona hægt og rólega niður. Strekkingur á morgun og svo frekar hægur vindur á sunnudag. Svo er næsta lægð væntanleg á mánudag en vonandi ekki eins slæm og þessi."