Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Ríkisstjórn Íslands fordæmir árás á Úkraínu

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Forsætisráðherra og utanríkisráðherra, fjármálaráðherra og ríkisstjórnin öll fordæma innrás Rússa í Úkraínu.   Þjóðaröryggisráð Íslands kemur saman í dag. Boðað hafði verið til þess fundar áður en innrás Rússa í Úkraínu hófst í nótt.

Katín Jakobsdóttir forsætisráðherra  „Íslensk stjórnvöld og ég fordæmum auðvitað þessa innrás. Þetta er alvarlegt brot á alþjóðalögum og í raun og veru lítur þetta þannig út að verstu spár hafi gengið eftir í þessum efnum.

„Kemur þjóðaröryggisráð saman eða hvað gerir Ísland þegar svona staða kemur upp?"

„Í fyrsta lagi erum við að taka þátt á alþjóðavettvangi með okkar samstarfsþjóðum. Fastaráð NATO er væntanlega annað hvort  bara að funda núna eða að hefja fund og raunar var það svo að ég var búin að boða  þjóðaröryggisráð saman í dag með fyrirvara til þess að ræða stöðuna almennt. Svo að það mun koma saman síðar í dag." 

„Þessi gjörð Evrópa, enginn átti von á að hann myndi gera þetta eða hvað?"  „Ja, nú var það svo að það voru í raun allar sviðsmyndir uppi en eins og ég segi það er eiginlega versta sviðsmynd sem er að raungerast. Það er að segja eins og þetta lítur út núna. Þannig að hérna að sjálfsögðu held ég að við höfum öll vonað að það myndi ekki ganga svona langt en þetta er ein af þeim sviðsmyndum sem við gátum átt von á."

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra kveðst slegin yfir fregnum af innrás stjórnvöld fordæmi þessa innrás. Reynt hafi verið að fá Pútín til samstarfs en án árangurs. „Því miður hefur hann valið að fara þessa leið. Þetta er raunveruleg ógn við öryggi Evrópu. Nú er fastaráð NATO að funda og ég get farið nánar yfir það hvað kemur út úr því þegar þar að kemur en það sem við óttuðumst mest er því miður að raungerast. Sem hefur afleiðingar fyrir óbreytta borgara eins og alltaf. Þetta er einfaldlega mjög alvarleg staða."  

„Hvað með sendiherra Rússa á Íslandi kemur til greina að vísa honum úr landi?"

„Við kölluðum hann á fund hér í gær og fórum yfir okkar málflutning nú er í raun forgangsatriði að styðja við það sem þarf að styðja við innan NATO, fylgjast náið með og fara yfir það sem er að gerast. Hvað snýr að sendiráði Rússlands hér. Það verður aðeins að koma í ljós."

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir innrás Rússlands í Úkraínu vera árás á okkar gildi; virðingu fyrir alþjóðalögum, áherslu á frið og lýðræðislegar framfarir. Í færslu á Facebook segir Bjarni árásina vera hörmulegt skeytingarleysi gagnvart öllu sem skapi grundvöll framfara og velsældar. Ísland eigi að taka fullan þátt í aðgerðum NATO og fordæma þessa framgöngu. 
 

 

Ólöf Rún Skúladóttir
Fréttastofa RÚV