Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Gíslatökumaðurinn í Amsterdam látinn af sárum sínum

24.02.2022 - 01:56
epa09778119 People walk past the Apple Store in Leidseplein in Amsterdam, Netherlands, 23 February 2022, a day after a man was held at gunpoint by another man. The hostage managed to run out of the building and the hostage-taker went after him. The perpetrator was knocked down by a police vehicle and arrested.  EPA-EFE/Olaf Kraak
 Mynd: EPA-EFE - ANP
Gíslatökumaður sem var í haldi lögreglu í Amsterdam höfuðborg Hollands lést af sárum sínum á sjúkrahúsi í dag. Maðurinn sem var 27 ára hélt fólki í gíslingu klukkustundum saman í Apple-verslun í miðborginni en lögreglubifreið keyrði hann niður þegar hann lagði á flótta úr búðinni.

Maðurinn hefur ekki verið nafngreindur en lögregla segir hann Amsterdam-búa með sakaferil að baki. Sömuleiðis að maðurinn hafi borið sprengiefni sem þó var ótengt.

Lögregla var kölluð að versluninni síðdegis á þriðjudag, en hún stendur við Leidseplein, sem er vinsælt meðal ferðamanna og frægt fyrir bari og kaffihús.

Maðurinn var íklæddur fötum í felulitum og í hollenskum miðlum mátti sjá hann veifa skotvopni með annarri höndinn og halda manneskju í hinni. Sömuleiðis mátti sjá að sprengiefni var bundið við líkama gíslatökumannsins.

Næstum fimm klukkustundir liðu uns gíslinum, búlgörskum manni, tókst að flýja og hollensk lögregla segir það hafa verið mikla hetjudáð.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV