Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Mannekla í öryggisstéttum ógni öryggi landsmanna

„Að mínu mati erum við komin alveg upp við vegg og kominn í það mikinn vanda að það verður að bregðast við og það strax,“ segir Guðbjörn Guðbjörnsson, yfirtollvörður og formaður félags þeirra, um manneklu í stéttinni. Sem er vandamál víða; samtals vantar á þriðja hundrað starfsmanna í lögreglulið landsins, ásamt toll- og fangavörðum, bæði vegna langvarandi manneklu og styttingar vinnuvikunnar. Á höfuðborgarsvæðinu er aðeins einn lögreglumaður á hverja þúsund íbúa.

„Það vantar um 200 lögreglumenn, til að það sé full mönnun,“ segir Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna.

„Eins og staðan er í dag, vantar okkur 20 starfsmenn vegna nýja vaktakerfisins sem við erum komnir á, 8 tíma. Það kallar á fleiri starfsmenn til vinnu,“ segir Victor Gunnarsson, formaður fangavarðafélags Íslands.

„Miðað við þá mönnun sem við höfðum á þessum tíma, 2018/19. Þá vantar 30-40 tollverði. Það er bara þannig. Það vantar raunverulega svona 15% myndi ég segja, nei 25% - en 15% myndi dekka það erfiðasta,“ segir Guðbjörn Guðbjörnsson, yfirtollvörður og formaður Tollvarðafélags Íslands. Öll þessi félög eiga það sameiginlegt að hafa glímt við manneklu í nokkur ár. 

„Öryggi okkar er ógnað“

„Það hefur áhrif á starfsemina sem slíka. Það er ekki hægt að skoða jafn mikið af vöru og farþegum og við það náttúrlega skapast ákveðið, ég vil næstum því segja öryggisleysi. Það er ekki sama eftirlit með innflutningi á vopnum eða á smygli, smygli á vöru sem varðar gjöld, en einnig smygli á fíkniefnum og alls kyns hættulegum varningi. Við erum að fylgjast með mjög mörgu í tollinum, með neytendastofu erum við að fylgjast með barnaleikföngum. Þannig þetta er mjög vítt svið, matvælum og matvælaöryggi. Við erum í samstarfi við mjög marga aðila en þetta hefur aðeins orðið að víkja vegna gríðarlegs mannskapsleysi. Eftirlitið á landamærunum er mjög skert, það verður að segjast eins og er,“ segir Guðbjörn.

„Menn eru að vinna lengur, allt að 16 tíma samfellt. Menn vinna oftar á aukavöktum. Þetta er keyrt meira á aukavöktum í dag en var. Það þýðir að menn verða fyrr veikir,“ segir Victor. „Öryggi okkar er ógnað, ekki síður fanga. Þeir eru ekki bara að lemja fangaverði, heldur líka samfanga sína.“

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Santos - RÚV
Victor Gunnarsson, formaður fangavarðafélags Íslands.

Einn lögreglumaður á hverja þúsund íbúa

„Sums staðar á landsbyggðinni er enginn á vakt stóran hluta sólarhringsins. Auðvitað má ekki tala um það að lögreglan sé ekki til staðar en svoleiðis er það bara,“ segir Fjölnir.

Á höfuðborgarsvæðinu er rúmlega einn lögreglumaður á hverja þúsund íbúa. Á landinu öllu eru þeir tæplega tveir á hverja þúsund samkvæmt upplýsingum frá landssambandinu. Árið 2007 voru þeir rúmlega tveir, þá þóttu lögreglumenn einmitt of fáir. Fjölnir segir að venjulega fækki lögreglumönnum í góðæri, sem svo komi til baka, en það hafi ekki gerst núna. Til samanburðar eru tveir á hverja þúsund í Svíþjóð, þar hefur lögreglumönnum fækkað undanfarin ár, en Fjölnir segir að samanburður milli landa sé flókinn því flest lönd telji aðeins lærða lögreglumenn en ekki afleysingafólk og lögreglunema eins og er gert hér.

Stundum hættulega fáir á vakt í höfuðborginni

„Lögreglan viðurkennir ekki að hún ráði ekki við verkefnið. Hún ræður alltaf við verkefnið, sama hvað við erum fá. En auðvitað hefur þetta áhrif á öryggið. Þegar það er ekki lögreglumaður til staðar. Stóran hluta sólarhringsins, víða á landsbyggðinni, kemur enginn á vakt fyrr en í hádeginu og lögreglustöðin lokuð. Ég veit það líka að víða á höfuðborgarsvæðinu eru stundum hættulega fáir á vakt. Einhvern tímann horfði ég á næturvakt, sem átti að taka Kópavog og Breiðholt og ég þori ekki einu sinni að segja hvað það voru fáir. Maður hugsaði bara: Ef eitthvað kemur fyrir. Ég veit ekki hvort að covid hafi hjálpað okkur í því, að hafa kannski síðustu ár, verið færri stór verkefni. En við sjáum á undanförnum vikum að þegar eitthvað stórt kemur fyrir þá þarf lögreglan að vera með mikinn mannskap sem er fljótur á staðinn. Það er því miður ekki alltaf til staðar,“ segir Fjölnir.

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Santos - RÚV
Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna.

Mönnunargat og laun lækkað

Guðbjörn segir að félaginu hafi verið lofað undanfarið ár að fleiri tollverðir yrðu ráðnir en það taki of langan tíma að hans mati.

Vantar ykkur pening til að ráða eða er erfitt að fá fólk í þessi störf? „Það ætti að vera hægt að fá fólk í þessi störf en auðvitað er það erfiðara en það var. Og þessir nýjustu samningar sem voru gerðir eru ekki til að bæta þetta, þó þeir hefðu átt að verða til þess. Þá meina ég þessa nýjustu samninga um bættan vinnutíma. Það eru ákveðin vonbrigði að launin hafa lækkað í ákveðnum stéttum. Þetta á við tollverði, lögreglumenn, fangaverði, landhelgisgæsluna,“ segir Guðbjörn. „Þetta er 50-80 þúsund sem fólk er hreint og beint að lækka í launum. Það er staðreynd. Það sést á launaseðlinum.“

En fær styttri vinnuviku á móti? „Já. En þú borgar ekki reikningana með því.“

„Það er sagt við mann: Þú kannt ekki að meta frítímann til launa. Það er erfitt að segja fólki það sem er kannski að lækka í launum. Alls konar vaktaálög hafa minnkað. Þá var tekinn upp svokallaður vaktahvati. Hann hefur ekki virkað nógu vel fyrri lögreglumenn, sérstaklega ekki á landsbyggðinni,“ segir Fjölnir.

„Það átti og það var hluti af samningsforsendunum að laun lækkuðu ekki, en þau hafa sannarlega gert það,“ segir Guðbjörn. 

Dómsmálaráðuneytið er að sögn Viktors með mannekluna í fangelsum landsins til skoðunar eftir að félagið sendi harðorða yfirlýsingu með kröfum um úrbætur fyrir um fjórum vikum. Í stjórnarsáttmálanum er því lofað að menntuðum lögreglumönnum verði fjölgað. Dómsmálaráðherra hefur talað um að mennta allt að 250 lögreglumenn á næstu misserum.

Mega ekki vopnast vegna manneklu

Það tekur tíma að mennta þá, hvað eigiði að gera á meðan? „Það tekur um það bil tvö ár að mennta lögreglumann í Háskólanum á Akureyri. Við þurfum bara að ráða afleysingafólk og vonast til að fólk vilji snúa aftur til starfa. En það er auðvitað ekki gott,“ segir Fjölnir

„Sum lögreglulið á landsbyggðinni, helmingurinn er ófaglærðir lögreglumenn, af því það er búið að vera þessi vopnaumræða í gangi. Það er þannig að það má enginn lögreglumaður vopnast, nema annar geti vopnast með honum. Ef það er talað um að lögreglan sé vopnuð víða um land, hún er það hreinlega ekki samkvæmt reglum. Hún má það hreinlega ekki vegna manneklu. Ég hef nú kallað það mannréttindabrot ef þú kærir kynferðisbrot og það tekur ár að rannsaka það, bara vegna manneklu, það er ekki ásættanlegt,“ segir Fjölnir.

Öryggi landsmanna minna

„Þetta varðar þjóðaröryggi, þetta varðar öryggi landsmanna,“ segir Guðbjörn.

Miðað við það sem þú ert að segja núna, má þá segja að öryggisstigið í landinu sé minna vegna manneklu? „Ég myndi segja það, ég hef fundað með fangavörðum, tollvörðum og slökkviliðsmönnum. Ég held að öryggisstigið sé minna, það er bara þannig,“ segir Fjölnir.

Hver á að laga þetta? „Það er Alþingi sem sér um að laga þetta með auknum fjárveitingum og fjármálaráðuneytið að sjálfsögðu. Þetta hefur ríkislögreglustjóri minnst á í sínum skýrslum og komið því á framfæri við fjármálaráðuneytið og aðra og þetta hefur verið sent á þjóðaröryggisráð. Að mínu mati erum við komin alveg upp við vegg og kominn í það mikinn vanda að það verður að bregðast við og það strax,“ segir Guðbjörn.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Santos - RÚV
Guðbjörn Guðbjörnsson, yfirtollvörður og formaður Tollvarðafélags Íslands.