Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Maður myrtur í bíl sínum í Södertälje

23.02.2022 - 02:30
Mynd með færslu
 Mynd: SVT
Stokkhólmslögreglan leitar nú morðingja manns sem fannst síðdegis í gær helsærður í bíl sínum í Södertälje, suður af höfuðborg Svíþjóðar.

Allmargir hafa verið yfirheyrðir, þyrlur leituðu á svæðinu og lögregla rannsakar upptökur úr öryggismyndavélum. Sænska ríkisútvarpið hefur eftir Mats Erikson, talsmanni lögreglunnar, að enginn hafi enn verið handtekinn.  

Erikson segir að nánustu ættingjar hins látna hafi verið upplýstir um örlög hans en vill ekki greina frá því hvort morðvopnið hafi fundist. Lögregla vinni nú hörðum höndum að því að greina atburðarásina sem leiddi til morðsins og þess sem á eftir fór.