Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Könnunarleiðangur um ljósmyndamiðilinn

Mynd: Hallgerður Hallgrímsdóttir / Hallgerður Hallgrímsdóttir

Könnunarleiðangur um ljósmyndamiðilinn

23.02.2022 - 11:10

Höfundar

Ljósmyndunin sjálf, sem listform, er viðfangsefni nýrrar ljósmyndasýningar Hallgerðar Hallgrímsdóttur og útkoman er „meta“, heillandi og lærdómsrík, segir gagnrýnandi Víðsjár.

Ólöf Gerður Sigfúsdóttir skrifar:

Með nútíma tækni og samfélagsmiðlum er sú iðja að taka ljósmynd orðin að hversdagslegri athöfn, og það að horfa á eigin myndir og annarra eitthvað sem við velflest gerum mörgum sinnum á dag. Í heimi stafrænnar tækni og snjalltækja getur í raun hver sem er orðið ljósmyndari og einfalt er að koma myndum í dreifingu og fá viðbrögð við þeim. En þótt við pælum kannski meira í myndefninu sjálfu en tækninni sem liggur að baki því, þá er áhugavert að velta fyrir sér sögunni, tækniþróuninni og heimspekinni sem liggur að baki ljósmyndun.

Listakonan Hallgerður Hallgrímsdóttir veltir fyrir sér ljósmyndamiðlinum á einkasýningu sinni sem nú stendur yfir í Hafnarborg, menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar. Sýningin ber yfirskriftina Fáeinar vangaveltur um ljósmyndun – III. hluti, og er hluti af dagskrá Ljósmyndahátíðar Íslands, sem dreifir úr sér víða um höfuðborgarsvæðið um þessar mundir. Sýningarstjóri er myndlistarmaðurinn Unnar Örn Auðarson og sýningartexta skrifar listfræðingurinn Jón Proppé.

Í þessum þriðja hluta sýningarraðar Hallgerðar um ljósmyndamiðilinn er tilraunamennska áberandi. Hún stúderar, prófar, rannsakar og analíserar miðilinn með áherslu á ólík form og afstöðu, og það hvernig tæknin hefur áhrif á birtingarmyndir fyrirbæra úr veruleikanum. Segja má að hér sé á ferðinni eins konar könnunarleiðangur sem listakonan býður okkur í. Sýningin er í raun afar útskýrandi og eilítið kennslufræðileg, sem ýtt er undir með númeratilvísunum sem fylgja hverju verki, líkt og verið sé að vísa í skýringarmyndir í bók. Að ganga inn í sýningarsalinn er dálítið eins og að ganga inn í rannsóknarstofu, þar sem samspil ljóss, tíma, tækni, efnafræði og fagurfræði er undir smásjá. Fyrirmyndir og eftirmyndir, frummyndir og ljósmyndir koma við sögu, tvívítt verður þrívítt og þrívítt verður tvívítt, og litir notaðir til að brengla mannsaugað.

Hér eru á ferðinni verk sem hvert og eitt beinir sjónum okkar að þessu tækniundri sem ljósmyndir eru, töfrar sem þó eru byggðir á gagnreyndum vísindum, efnahvörfum og vélum. Verk Hallgerðar eru afar fjölbreytt, hún setur fram skúlptúra, lágmyndir og ljósmyndir á prenti, í stafrænu formi og í fjölfeldi. Hún gefur þeim gagnsæja titla sem eru í senn útskýrandi fyrir tæknina í hverju tilfelli fyrir sig um leið og þeir leiða mann áfram um heimspekilegar vangaveltur hennar. Þetta kemur til dæmis vel fram í verkinu „Prómóþeus“, sem samanstendur af stórum bunka af ljósritum, sem sýna ljósmynd af skjámynd á síma sem aftur sýnir logandi kerti, en Prómóþeus var einmitt guð eldsins í grískri goðafræði. Hér, eins og í mörgum öðrum verkum á sýningunni, veltir Hallgerður fyrir sér hlutverki ljóss og birtu í samhengi við stafræna tækni og fjölföldun.

Aðrar vangaveltur Hallgerðar snúa að nokkuð flóknum tæknilegum atriðum litafræðinnar, eins og kemur helst fram í eins konar samanburðarstúdíu í verkunum „Samlægt litalíkan“ og „Frádrægt litalíkan“. Þá beinir hún sjónum okkar að því hvernig miðillinn hefur ekki eingöngu áhrif á hvað við sjáum heldur hvernig við sjáum það. Þessar pælingar liggja eflaust til grundvallar flestum verkunum á sýningunni, en endurspeglast einna helst í verkinu „14 frávik“. Verkið er stúdía um ólík sjónarhorn sem hún beitir á kyrralífsmynd með ólíkri tækni og aðferðum. Hún rannsakar ljósmyndamiðilinn með því að skoða hluti sem stillt hefur verið upp á dúkalögðu borði, við sjáum blómavasa, glös, hálfskrælnaða appelsínu, stilk af vínberjaklasa, blöðru, litla steinvölu og eitthvað ógreinilegt plastrusl sem ummerki um mannlegar athafnir. Hún gerir tilraunir með ljósmagn, fókus og framköllun, stafræna og hliðræna tækni, polaroid-tækni, og ólíkar tegundar af framköllunarpappír. Hún beitir víðu ljósopi eða þröngu ljósopi og leikur sér með liti og svarthvíta tækni. Þannig myndast ólík stemmning í hverri einustu útgáfu, hver mynd hefur ólíkan karakter og vekur upp ólíkar tilfinningar hjá áhorfandanum. Í verkinu nikkar hún yfir til gömlu málarameistaranna sem máluðu sínar kyrralífsmyndir út frá einu einstöku sjónarhorni yfir langan tíma. Hér er hún augljóslega að velta fyrir sér tímanum, ekki eingöngu áhrifum hans á ljósmyndina sjálfa heldur einnig viðfangið sem slíkt, það hvernig tíminn líður fyrir utan ljósmyndina, í einhvers konar raunveruleika, ef hann er þá til.

Hallgerður vinnur með miðilinn á reflektívan hátt, þ.e. hún ígrundar miðilinn sjálfan um leið og hún beitir honum á eins konar meta-leveli. Þannig er ljósmyndin orðin allt í senn viðfangsefnið, aðferðin og miðlunarformið, í meðförum hennar. Hún skoðar ekki bara veruleikann sem ljósmyndin fangar heldur gaumgæfir hún einnig veruleika ljósmyndarinnar sjálfrar. Gaumgæfir það sem gerist í atburðinum sem ljósmyndataka er. Hún minnir okkur á að sýn myndavélarinnar er aldrei hlutlaus, ljósmyndir eru alltaf teknar af einhverjum, af einhverju, á tilteknum stað og í tilteknu rými. Þannig dregur hún fram galdurinn sem liggur að baki ljósmyndum, um leið og það er svo ofureinfalt að taka myndir. Hún hvetur okkur til að horfa á rammann, ljósmyndina sjálfa sem fyrirbæri, í stað þess að horfa beint í gegnum rammann á hlutinn sem myndin er af.

Um leið og sýningin ber keim af vísindalegum tilraunum, eru hér fullmótuð listaverk sett fram, sem eins konar hjálpartæki til rýna, rannsaka, gegnumlýsa og gaumgæfa. Þetta er skemmtilega nördaleg sýning og náið samband Hallgerðar við ljósmyndamiðilinn er í senn heillandi og lærdómsrík.

Sýning Hallgerðar, Fáeinar vangaveltur um ljósmyndun - III. hluti, er sýnd í Hafnarborg og er opin til 27. mars.