Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Hættustigi aflýst á Patreksfirði og fólk má snúa heim

Mynd með færslu
 Mynd: Hákon Sigurðsson - Aðsend
Óvissustigi á sunnan- og norðanverðum Vestfjörðum og hættustigi á Patreksfirði, vegna snjóflóðahættu, hefur verið aflýst. Tuttugu og átta Patreksfirðingar fá því að snúa heim eftir að hafa þurft að rýma hús sín í gær.

Óvissu- og hættustigi fyrir vestan var aflýst á tíunda tímanum í morgun, sem þá hafði gilt í um fjórtán klukkustundir. Vitað er af þremur snjóflóðum sem féllu á Vestfjörðum, öll í Patreksfirði. Tvö ofan rýmingarreits, sem hafði þá þegar verið rýmdur, og annað sem lokaði veginum innar í firðinum. Óliver Hilmarsson er sérfræðingur á Ofanflóðasviði Veðurstofu Íslands.

„Þetta bara lítur vel út núna. Veðrið er gengið niður. Það var austan óveður á sunnanverðum Vestfjörðum, sérstaklega í gærkvöldi og fram á nótt. Úrkoman náði sér aldrei almennilega á strik hérna á norðanverðum fjörðunum, en núna er þetta gengið niður að mestu.“

Á morgun gengur þó annar norðaustan hvellur yfir og gæti hætta myndast á ný.

Mynd með færslu
 Mynd: Hákon Sigurðsson - Aðsend

Hafa þurft að yfirgefa heimili sín tvisvar á tveimur vikum

Tuttugu og átta búa í þeim átta húsum sem rýmd voru á Patreksfirði í gær. Alda Hrannardóttir formaður Rauða krossins á Patreksfirði segir rýminguna hafa gengið vel, enda stutt síðan síðast. 

„Það var síðast rýmt áttunda febrúar, bara tvær vikur síðan. Þetta voru sömu hús, þannig að núna vissi fólk svo sem alveg hvað það var að fara út í. Þannig það var engin óvissa,“ segir hún. Heimatökin voru þá hæg við að útvega gistingu.

„Við erum svo lánsöm að það er hérna hótel í rekstri, og fáir gestir á þessum tíma, þannig það er hægt að taka á móti þeim sem fara ekki til ættingja og vina og það fór bara afskaplega vel um fólk.“ 

Snjóflóð á Skarðsströnd

Á Skarðsströnd í Dölum er vegur lokaður vegna snjóflóðs sem féll á hann en nokkur flóð hafa fallið þar undanfarið. Og í nótt lokaði Vegagerðin Flateyrarvegi og Súðavíkurhlíð á norðanverðum Vestfjörðum vegna snjóflóðahættu, þar er enn óvissustig en ekki er vitað til þess að flóð hafi fallið þar.