Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Pútín viðurkennir sjálfstæði Donetsk og Luhansk

21.02.2022 - 18:32
epa06184628 Russian President Vladimir Putin at a news conference on the results of the BRICS summit in Xiamen, China, 05 September 2017.  EPA-EFE/MIKHAIL KLIMENTYEV / SPUTNIK/ KREMLIN POOL MANDATORY CREDIT/SPUTNIK
 Mynd: EPA-EFE - SPUTNIK POOL
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, ætlar að viðurkenna sjálfstæði héraðanna Donetsk og Luhansk. Héruðin eru innan landamæra Úkraínu. Evrópusambandið hefur boðað harðar efnahagsþvinganir.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórnvöldum í Kreml, BBC greinir frá. Reuters greindi frá því skömmu áður að Pútín hafi hringt í Emmanuel Macron Frakklandsforseta og Olaf Scholz Þýskalandskanslara og greint þeim frá ákvörðun sinni. Macron hefur kallað þjóðaröryggisráð sitt saman til fundar í kvöld.

Donetsk og Luhansk eru innan landamæra Úkraínu. Úkraína og Vesturveldin hafa áhyggjur af því að viðurkenningu á sjálfstæði héraðanna fylgi rússneskt herlið. Fyrir því eru fordæmi. Rússar viðurkenndu stjálfstæði tveggja svæða í Georgíu árið 2008 og hafa verið með hersetu þar síðan. Josep Borell, utanríkismálastjóri ESB, sagði fyrr í kvöld að sambandið væri tilbúið að bregðast við ef Pútín viðurkenndi sjálfstæði héraðanna.

Pútín hóf að ávarpa rússnesku þjóðina í sjónvarpi nú rétt fyrir klukkan 19.

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV