Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Lík finnast enn í Petrópolis og mannskaðaveður í grennd

21.02.2022 - 06:21
epa09764113 A photograph taken with a drone showing firefighters carrying a person killed by the landslide that has left 67 dead so far in Petropolis, Brazil, 16 February 2022. Petropolis, about 70 kilometers from Rio de Janeiro, accumulated 259 millimeters of rain in six hours in the afternoon and night of 15 February, according to civil defense sources, and a moderate amount of rainfall is also expected on 16 February.  EPA-EFE/Antonio Lacerda
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Leitar- og björgunarfólk í brasilísku borginni Petrópolis hefur fundið lík 165 borgarbúa sem fórust í miklum flóðum og aurskriðum í borginni á þriðjudag í liðinni viku. Borgaryfirvöld greindu frá þessu í gærkvöld. 28 börn eru á meðal hinna látnu, að sögn lögreglu. Þótt næsta útilokað þyki að nokkur finnist á lífi er leit haldið áfram í húsarústum og aurhaugum í borginni, við erfiðar og hættulegar aðstæður. Tveir fórust í illviðri í nágrannaríki Ríó de Janeiro í gær.

Fjöldi þeirra sem saknað er er á reiki. Þeim hefur þó fækkað síðustu daga eftir því sem kennsl hafa verið borin á fleiri hinna látnu og hinum fjölgar líka, sem saknað var en hafa síðan gefið sig fram heil á húfi. Þó er talið að um 100 manns sé enn saknað.

Petrópolis er 300.000 manna borg í fjalllendi í Ríó de Janeiro-ríki, rúma 60 kílómetra norður af samnefndri stórborg. Skýfall varð yfir Petrópolis á þriðjudag og á þremur tímum rigndi þar jafnmikið og í meðalmánuði, með skelfilegum afleiðingum.

Fjöldi bygginga eyðlagðist í hamförunum sem mynduðu stórt skarð í borgina. Fjöldi fólks missti heimili sín og hátt í þúsund manns dvelja enn í neyðarskýlum. Ekki er ljóst hvenær eða hvort þau geta snúið aftur til síns heima.

Illviðrasamt hefur verið í Brasilíu síðustu vikur og síðast gær fórust tveir í óveðri og flóðum í Espirito Santo-ríki, grannríki Ríó de Janeiro í norðri. Hátt á þriðja hundrað manns hafa farist í illviðrum, flóðum og aurskriðum í Brasilíu það sem af er ári.