Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Fólk varað við að vera úti - Hellisheiði lokað

Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Búið er að loka veginum yfir Hellisheiði vegna óveðursins sem skellur á undir kvöld, en aðrir vegir á suðvesturhorninu eru á óvissustigi og líklegt er að víðar verði lokað áður en veðrið versnar frekar suðvestanlands, þar sem appelsínugul viðvörun tók gildi klukkan fjögur og klukkan sjö breytist hún í rauða. Óvissustig almannavarna tekur gildi klukkan fimm og verður samhæfingarmiðstöð starfrækt fram til morguns. Íbúar eru hvattir til að halda sig heima meðan veðrið gengur yfir.

Jón Viðar Matthíasson, framkvæmdastjóri almannavarna á höfuðborgarsvæðinu, hvetur fólk til að halda sig heima. Unnið hefur verið að fyrirbyggjandi aðgerðum í dag og hreinsun frá niðurföllum. Mikið rok, rigning og hálka einkennir ástandið. 

Hálkuvörðu og hreinsuðu frá niðurföllum í dag

„Þarna er verið að tala um dálítið mikið rok, það er verið að tala um rigningu. Það hefur í dag verið unnið hörðum höndum hjá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu að ryðja frá niðurföllum og öðru. Svo verða menn á vakt í nótt til þess að grípa inn í ef frá þarf að halda. Aðgerðum verður stýrt hérna frá aðgerðastjórn höfuðborgarsvæðisins. Það eru allir tilbúnir í verkefnið en maður vonar að spár gangi ekki alveg eftir,“ segir Jón Viðar.

Er mikill viðbúnaður?

„Já, það er töluverður viðbúnaður. Það er búið að virkja björgunarsveitir og starfsfólk sveitarfélaganna. Það er búið að láta skólasamfélagið og ýmiss konar starfsemi sveitarfélaganna vita,“ segir Jón Viðar.

Hvetur fólk til að halda sig heima

„Það sem ég ráðlegg nú bara fólki er að vera sem minnst á ferðinni því að þá auðveldar það okkur viðbragðsaðilum vinnuna. Og þetta er ekkert ferðaveður. Þannig að þeir sem mögulega geta verið heima hjá sér: Verið heima,“ segir Jón Viðar.

Þarf ekki nema eitt ógætilegt skref í fljúgandi hálku

Viðbúið er að víða verði töluverð hálka. Þegar fréttastofa RÚV ræddi við Hjalta Má Björnsson, yfirlækni bráðamóttöku Landspítala, um klukkan þrjú höfðu þó ekki margir leitað á spítalann vegna hálkuslysa. Hann hvetur fólk til þess að nota mannbrodda og bendir á að ekki þurfi nema eitt ógætilegt skref til að fá slæma byltu og brjóta sig.